„Getum ekki valið að mæta stundum“

Steingrímur J. Sigfússon þvertekur fyrir að eitthvert bruðl sé í …
Steingrímur J. Sigfússon þvertekur fyrir að eitthvert bruðl sé í gangi við utanlandsferðir þingmanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þarna er um reglubundna þátttöku okkar að ræða í þessu norræna samstarfi. Við erum með litlar sendinefndir og fámennan hóp, 7 manns af 87, þannig að Ísland er ekki mjög stórt í þessu. Við bara mönnum að lágmarki það sem við tökum þátt í,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, um ferð sjö þingmanna og þriggja aðstoðarmanna á fund velferðarnefndar Norðurlandaráðs sem fór fram á Nuuk á Grænlandi nýverið.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, gerði ferðina að umtalsefni í umræðu um störf þingsins á Alþingi í gær, en hann var einn þeirra þingmanna sem sótti fundinn. Sagði hann að ferðin hefði verið „rándýr“ og tilgangur fundarins takmarkaður.

„Norðurlandaráð ákvað að hafa þessa nefndafundi á Grænlandi í fyrsta sinn, en það er til að sýna fram á að Norðurlöndin og sjálfsstjórnarsvæðin eru saman í þessu samstarfi. Það er vissulega rétt að það er meira fyrirtæki og býsna dýrt þegar fundir og ráðstefnur eru á Grænlandi, en þannig er það nú bara,“ segir Steingrímur og bendir á að mönnum þyki líka orðið ansi dýrt að koma til Íslands.

„Við getum ekki valið að mæta stundum og stundum ekki. Ef við ætlum að taka þátt í þessu samstarfi sem fullgildir aðilar og sinna okkar skyldum, þá erum við með. Þetta er bara reglubundin rútínuþátttaka gegnum aðild okkar að Norðurlandaráði,“ ítrekar hann.

Trúir ekki að kostnaðurinn orsakist af verðlaginu

Guðmundur gagnrýnir í fyrsta lagi kostnað við hótelgistingu og telur að skipuleggjendur fundarins hafi ekki verið meðvitaðir um hann. Hótelið sem gist var á heitir Hótel Hans Egede og er fjögurra stjörnu.

Í samtali við mbl.is segir Guðmundur hótelið hafa verið ósköp venjulegt, enginn íburður eða sérstök flottheit. Það hafi hins vegar verið miklu dýrara en mun flottari hótel sem hann hefur dvalið á. „Það var bara smurt á þetta fannst mér. Ég fékk borgaða dagpeninga sem áttu að duga fyrir hóteli og mat en þeir dagpeningar dugðu bara akkúrat fyrir hótelinu, 144 þúsund krónur.“ Aðspurður vill Guðmundur þó ekki meina að háan hótelkostnað megi rekja til verðlags á Grænlandi. „Nei, ég trúi því ekki. En spurningin er af hverju vissu þau ekki hvað hótelið kostaði? Af því um helmingur af dagpeningum á að fara í hótelkostnað, ekki allur peningurinn.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segir ferð til Grænlands …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segir ferð til Grænlands hafa verið tilgangslitla og kostnaðarsama. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá segir Guðmundur að vegna þess hvernig flugi var háttað hafi hann þurft að dveljast mun lengur á Grænlandi en nauðsynlegt var. „Mér fannst skipulagsleysið algjört.“

Hann spyr af hverju þurfti að halda fundinn í Nuuk og segist ekki taka gildar þær skýringar að búið hafi verið að halda slíka fundi í Færeyjum og Hjaltlandseyjum og því hafi Grænland verið næst í röðinni. „Mér finnst mjög undarlegt að það sé hægt að borga hvað sem er, af því bara. Ég trúi því að þessi ráðstefna hefði getað verið margfalt ódýrari. Stór hluti af því sem fór þarna fram var að uppfæra og laga texta.“

Mun næst kynna sér tilgang og niðurstöðu

Ef þetta er bruðlið sem er í gangi, tvöfaldur kostnaður á Þingvöllum og tvöfaldur kostnaður þarna, eins og ég hafði á tilfinningunni með hótelið, ef það er tvöfaldur kostnaður alls staðar þá finnst mér ekki skipta máli hvort við borgum þetta eða einhver annar. Mér finnst þetta peningasóun og það væri hægt að nota peningana í eitthvað allt annað.“

Guðmundur segir að nóg hefði hefði verið að senda tvo fulltrúa á umræddan fund. Hann vísar til ýmissa mála sem honum finnst þurfa að afgreiða hér á landi, til að mynda mál er varða öryrkja og endurgreiðslur Sjúkratrygginga Íslands á lækniskostnaði. „Á meðan svona mál eru í gangi þá finnst mér alveg óþarfi að vera í þessu. Ég vil taka til heima hjá okkur áður en við förum að gera eitthvað annars staðar sem kostar peninga. Ég vil að það verði skoðað mjög vel hvort svona er að skila okkur einhverju. Ég vil hafa tilgang,“ segir Guðmundur, en að hans mati var ferð hans til Grænlands að mestu leyti tilgangslaus.

„Næst þegar ég þarf að fara svona þá mun ég kynna mér nákvæmlega hvað er um að vera, hver er tilgangurinn og hver niðurstaðan á að vera. Annars er tíma mínum mikið betur varið annars staðar,“ bætir hann við.

Ekki hægt að skera niður nema Íslandi dragi sig út úr samstarfi

Steingrímur segir erfitt að skera niður þátttöku Íslands í Norðurlandaráði með öðrum hætti en að Ísland dragi sig að einhverju leyti út úr norrænu samstarfi. Þessu sé þannig háttað núna að þingmenn sem ekki gegni öðrum trúnaðarstörfum fyrir þingið sæki fjóra fundi Norðurlandaráðs á ári.

„Ég sé ekki að við getum farið að skera það meira niður, þar sem þetta er lágmarksþátttaka í starfi Norðurlandaráðs. Það þarf þá bara að taka þá umræðu hvort menn vilji að Ísland dragi sig að einhverju leyti út úr norrænu samstarfi. Ég er alveg til í að taka umræðu við menn um það, en ég get ekki séð að hún eigi að vera á þeim nótum að við sinnum þessu stundum og stundum ekki.“

Hann þvertekur fyrir að eitthvert bruðl sé í gangi við utanlandsferðir þingmanna. Alþingi sé mjög stíft á því að alltaf sé valinn ódýrasti ferðamátinn sem og ódýrasta flugið, þegar notast er við það. „Við erum mjög aðhaldssöm í því að þátttaka okkar sé eins ódýr og mögulegt er. En við ráðum ekki ein því hvar er ákveðið að hafa fundi og við ráðum ekki verðlaginu í Nuuk, Ósló eða Reykjavík. Ef fundir eru þar þá förum við á hótel þar. Það er ekki verið að bruðla á nokkurn hátt, heldur þvert á móti. Allt okkar fólk ferðast á almennu farrými á ódýrustu fargjöldum sem hægt er að fá. Við erum með tiltölulega lítið „budget“ í þetta og það er fyrirframskammtað og ákveðið hvað það er á hverju ári sem fylgir þátttökunni. Öll frávik, ef menn ætla að fara á aukafundi eða eitthvað slíkt, þarf að taka fyrir sérstaklega. Og það er lítið svigrúm til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert