Komast ekki á legudeildir

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi

„Álagið felst í því að það eru margir sjúklingar sem hafa lokið fyrstu meðferð á bráðamóttöku en komast ekki til innlagnar á sérhæfðum legudeildum,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala, en í dag var greint frá því að vegna álags væri sjúklingum forgangsraðað eftir bráðleika á bráðamóttöku.

„Orsökin er í sjálfu sér ekki slys eða aukin veikindi, heldur skortur á rúmum á legudeildum,“ segir Jón Magnús, sem býst við því að ástandið geti varað í nokkra daga. „Þetta ástand er alltaf svolítinn tíma að byggjast upp. Það hefur verið vaxandi álag undanfarna daga og við gerum ráð fyrir því að það taki líka nokkra daga að vinda ofan af þessu.“

„Við gerum það bæði með því að virkja spítalann allan til að leysa úr þessu, en líka í góðu samstarfi við heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og Læknavaktina, og svo sjúkrahúsin í nágrannasveitarfélögunum.“

Fá góða þjónustu á heilsugæslustöðvum

Biðlað er til fólks með minna bráð veikindi og minni háttar áverka að leita til heilsugæslustöðvar í sínu hverfi. „Heilsugæslan hefur aukið mjög sína þjónustu undanfarin ár. Allar heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins eru með opna bráðatíma á daginn sem fólk getir farið í án þess að panta tíma. Við minni veikindi eða slys getur fólk fengið mjög góða þjónustu með því að leita á sína heilsugæslu,“ segir Jón Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert