Leyfi frá störfum vegna gatnaframkvæmda

Örlygur Hnefill Örlygsson.
Örlygur Hnefill Örlygsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Örlygur Hnefill Örlygsson, hefur óskað eftir tímabundnu leyfi frá sveitarstjórn út október vegna gatnaframkvæmda við hótel sem hann rekur í sveitarfélaginu og hafa tekið lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir. Segir hann hótelið hafa orðið fyrir fjárhagstjóni af þeim sökum.

„Hefur þetta mál allt valdið mér mikilli streytu [sic] og sömuleiðis starfsfólki mínu í gestamóttöku. Hópar hafa frá horfið, íbúar í nágrenni og gestir Cape Hotel, sem og ferðaskrifstofur sem ég á í miklum samskiptum við ítrekað lýst óánægju með aðgengi og ástand á verksvæði, og málið valdið rekstrinum tjóni og álitshnekkjum. Ég ber ábyrgð á starfsfólki mínu og rekstri fyritækisins,“ segir enn fremur í ósk Örlygs um leyfi frá störfum í sveitarstjórn.

Ósk Örlygs var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar í dag og samþykkt. Fram kemur í skriflegri ósk hans að hann hafi látið reiði sína vegna dráttarins á framkvæmdunum bitna á starfsmanni sveitarfélagsins sem hafi verið mistök af kjörnum fulltrúa. Biðst hann afsökunar á því og tekur fram að hann hafi þegar beðið starfsmanninn sjálfan afsökunar persónulega.

Ljóst sé að fara þurfi vandlega ofan í saumana á framkvæmdinni vegna þess hve hún hafi dregist í sveitarstjórn og af þeim sökum telji Órlygur ekki eðlilegt að hann eigi sæti á þeim vettvangi sem sú athugun fer fram. „Því óska ég eftir leyfi frá störfum í sveitarstjórn út október 2018 og treysti því að framkvæmdum og skoðun á völdum mikilla tafa og framúrkeyrslu verði lokið í stjórnsýslu Norðurþings þá. Óska ég eftir að leyfið taki gildi frá og með lokum fundar sveitarstjórnar í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert