Mál forstjórans einnig til skoðunar

Mikill samhljómur var meðal stjórnarmanna á fundinum.
Mikill samhljómur var meðal stjórnarmanna á fundinum. mbl.is/Hari

Stjórnarformaður OR vonast til þess að óháð úttekt á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins verði til þess að þar á verði hægt að gera breytingar til batnaðar. Aðkoma Bjarna Bjarnasonar forstjóra að ráðningu Bjarna Más Júlíussonar er meðal þess sem tekið verður til skoðunar.

„Það var mjög góð umræða sem átti sér stað og það var mikill samhljómur í stjórn um að veita Bjarna leyfi til þess að stíga til hliðar í sínu starfi og um að ráða Helgu Jónsdóttur í hans stað á meðan. Það var einnig samhljómur um að ráðast í þessa úttekt,“ sagði Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, í samtali við mbl.is eftir fundinn.

Bjarni Bjarnason forstjóri og Brynhildur Davíðsdóttir stjórnarformaður.
Bjarni Bjarnason forstjóri og Brynhildur Davíðsdóttir stjórnarformaður. mbl.is/​Hari

Bjarni mun víkja úr starfi til tveggja mánaða og segir Brynhildur að Helga komi inn sem reynslumikill stjórnandi. „Hún hefur víðtæka reynslu og hún þekkir fyrirtækið. Hún var hér í stjórn og ég var hennar varamaður, þannig vissi ég af henni.“

„Að sjálfsögðu er fólk slegið,“ sagði Brynhildur, spurð um það andrúmsloft sem ríkt hefur innan fyrirtækisins undanfarna daga. „OR er frábært fyrirtæki og býr yfir miklum mannauði. Við vinnum saman að þessu og það styrkir okkur mikið að fá núna öflugan forstjóra inn í stað Bjarna í tvo mánuði. Ég treysti því að hún muni leiða fyrirtækið áfram.“

Endanlegt fyrirkomulag úttektarinnar liggur ekki fyrir, en hún verður framkvæmd af innri endurskoðun Reykjavíkurborgar í samstarfi við óháðan aðila. „Við munum bæði skoða þá vinnustaðarmenningu fyrirtækisins, og þessi einstöku starfsmannamál sem komið hafa upp.“

Aðspurð hvort aðkoma Bjarna forstjóra að ráðningu Bjarna Más Júlíussonar verði skoðuð sagði Brynhildur: „Það verða allar hliðar skoðaðar á þessum málum.“

Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis OR, var sagt upp störfum vegna óviðeigandi framkomu tveimur dögum eftir að Áslaugu Thelmu Einarsdóttur var sagt upp hjá ON. Áslaug Thelma hefur greint frá því að bæði forstjóri og starfsmannastjóri OR hafi vitað af „göllum“ Bjarna Más við ráðningu hans.

„Mál Áslaugar verður að sjálfsögðu hluti af þessari úttekt og verður skoðað frá öllum hliðum,“ sagði Brynhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert