„Menn vinna svona rólega og af öryggi“

Björgunarsveitarmenn á toppi Kirkjufells.
Björgunarsveitarmenn á toppi Kirkjufells. Mynd/Skjáskot úr myndbandi Landsbjargar

Bana­slys varð í gærmorgun þegar er­lend­ur karl­maður féll er á hann var á göngu á Kirkju­felli á Snæ­fellsnesi. Að sögn lög­regl­unn­ar á Vest­ur­landi komu ferðamenn auga á mann­inn þar sem hann lá um klukkan 10 og var þá haft sam­band við Neyðarlín­una.

Björgunarsveitir af Snæfellsnesi voru kallaðar út og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með fimm sérhæfða fjallbjörgunarmenn úr Reykjavík. Þyrlan gat hins vegar ekki lent nálægt slysstaðnum vegna sviptivinda.

Einar Strand, formaður svæðisstjórnar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, stjórnaði aðgerðum í gær en hann segir tvö tveggja manna gönguteymi hafa komið að manninum sem lést. Svo vel hitti á að tveir einstaklinganna voru bráðaaðilar sem skipti töluverðu máli.

„Þetta var fólk sem vissi hvað það var að gera þegar það gaf lýsingar á aðstæðum sem var algjörlega frábært. Maður sá það líka þegar það kom niður hvað það var miklu meira jafnvægi en maður hafði reiknað með,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Hann segir manninn sem lést hafa orðið viðskila við félaga sinn, en þeir hafi verið tveir á göngu.

Frá aðgerðum björgunarsveita á Kirkjufelli.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Kirkjufelli. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

15 björgunarsveitamenn í fjallinu

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fell maðurinn niður úr tölu­verðri hæð, og var hann lát­inn þegar að hon­um var komið.

„Það kom fljótlega í ljós að um banaslys var að ræða. Þegar útkallið kom til okkar var það næstum staðfest. Þá fer aðgerðin í allt annan gír og hún róast niður. Þá erum við að fara að sækja viðkomandi og gera það af eins mikilli virðingu og hægt er. Þetta er ekki gert með neinum látum,“ segir Einar.

„Við reyndum að notast við þyrlu en það var einfaldlega ekki hægt vegna þess hvernig vindurinn var við fjallið. Það var því ákveðið að gera þetta með línuvinnu,“ bætir hann við.

Hann segir sjö björgunarsveitamenn hafa komið úr Reykjavík til að aðstoða við verkefnið en að öðru leyti hafi þetta verið fólk af svæðinu. Í aðgerðina voru skráðir 40 manns, fyrir utan lögreglu, sjúkralið og Landhelgisgæsluna. Einar telur að um 50 manns hafi verið að ræða í heildina. Um 15 manns hafi verið í sjálfu fjallinu sjálfu en aðrir fyrir neðan.

Einar segir að um töluvert stóra aðgerð hafi verið að ræða. „Það þurfti að slaka manninum niður í tveimur færslum og þar tók við sexhjól sem flutti hann niður á veg í sjúkrabílinn. Í það þurfti um 20 manns. Menn vinna svona rólega og af öryggi svo við fáum ekki annað slys,“ segir hann, en aðgerðin tók um þrjár klukkustundir.

Myndband Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem sýnt er frá útkallinu: 

Þarf að umgangast Kirkjufellið af meiri virðingu 

Aðspurður segir Einar aðstæður á vettvangi hafa verið góðar fyrir utan dálítinn vind og brattann í fjallinu sem er töluverður. Aðgerðin hafi tekist vel frá hans bæjardyrum séð.

„Þetta er kannski ekki erfitt fjall, en það þarf að gæta ýtrustu varúðar á köflum. Það þarf ekki mikið til að þarna verði slys, ef menn eru ekki að gæta ýtrustu varúðar og rétt búnir. Það er mjög bratt þarna og gönguleiðin upp á fjallið er sum staðar með hliðarhalla þar sem getur orðið sleipt. Ef mönnum skrikar fótur í þessum hliðarhalla þá er ekkert sem stoppar. Þá er það bara niður,“ segir Einar um aðstæðurnar.

„Við þurfum að fara að umgangast þetta fjall af meiri virðingu. Ég segi ekki að þetta sé stórhættulegt, en allt sem við umgöngumst ekki af virðingu getur orðið hættulegt. Við þurfum að bera meiri virðingu fyrir náttúrunni. Þó að hún sé falleg og skemmtileg þá fyrirgefur hún ekki mikið. Það sem á að vera létt og góð gönguferð getur orðið að slæmu slysi með óaðgæslu. Stundum þarf það ekki einu sinni til, stundum er um að ræða hreina og beina óheppni.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar við Kirkjufell í gær.
Þyrla Landhelgisgæslunnar við Kirkjufell í gær. Ljósmynd/Aðsend

Fólk virðist ekki jafnvant og áður

Einar bendir á að aðeins sé rúmt ár síðan banaslys varð í fjallinu, þegar erlendur ferðamaður fell til bana. Fyrir utan það muni menn aðeins eftir einu öðru banaslysi þar. „Það segir okkur að það er að verða mun algengara að fólk sem gengur á fjallið er ekki jafnvant og áður. Fólk hefur kannski minni þekkingu, þekkir fjallamennsku ekki nógu vel. Þetta oft venjulegir venjulegir ferðamenn en hér áður var um meiri reynslubolta að ræða.“

Hann segir fólk verða að þekkja sín takmörk og betra sé að snúa við frekar en að lenda í ógöngum. „Það er mjög algengt að við sækjum fólk í sjálfheldu hingað og þangað. Við vitum ekki hvort þetta byrjaði ekki sem einhvers konar sjálfhelda. Hann var einn þegar þetta gerðist og því engin vitni að atburðinum,“ segir Einar og vísar til slyssins í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert