Öryggi starfsmanna ekki tryggt við Safnahúsið

Unnið hefur verið að endurbótum við Safnahúsið við Hverfisgötu.
Unnið hefur verið að endurbótum við Safnahúsið við Hverfisgötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins á byggingarvinnustað við Safnahúsið við Hverfisgötu í Reykjavík, kom í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur.

Öll vinna var því bönnuð á vinnupöllum við bygginguna, nema til lagfæringar á þeim, þar sem lífi og heilbrigði starfsmanna var talin hætta búin. Þetta kemur fram á vef Vinnueftirlitsins. 

Fram kemur að úttektin hafi verið gerð í gær, en verkstaðurinn var skoðaður og öryggismál voru rædd við stjórnendur á staðnum. 

Fram kemur í skoðunarskýrslu eftirlitsins, að verkpallar við húsið og umferðarleiðir á þaki þess séu ekki í samræmi við gildandi reglugerðir. Það vantar bæði handrið og fallvarnir sem valdi aukinni slysahættu. Tekið er fram að það sé nauðsynlegt að gera úrbætur strax. Því var öll vinna á verkpöllum bönnuð nema við lagfæringar, sem fyrr segir. 

Þá kemur fram, að ekki hafi verið gert áhættumat fyrir starfsmenn fyrirtækja sem vinna við verkið og verkþætti þess, eins og vinnu í hæð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert