Rannsóknarlögregla ríkisins snúi aftur

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Golli

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, lagði það til á Alþingi að embætti rannsóknarlögreglu ríkisins verði endurreist en það var lagt niður árið 1997 þegar embætti ríkislögreglustjóra var stofnað.

Birgir sagðist, undir liðnum störf þingsins, hafa rætt við fagaðila sem séu á einu máli um að það yrði mjög til bóta að stofna embætti rannsóknarlögreglu ríkisins. Þannig verði allt á einum stað og það gæti komið öðrum embættum til aðstoðar eftir þörfum.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins. Ljósmynd/Alþingi.is

Hann sagði þörf á stefnu varðandi gæði löggæslunnar og rannsóknir sem tengjast henni og kvaðst hafa rætt við lögreglumenn sem segja innihald lögreglunámsins á Akureyri ekki ásættanlegt.

Þegar rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður voru flest verkefni hennar færð til lögreglustjóra í héraði og ríkislögreglustjóra. Ýmis stjórnsýsluverkefni lögregludeilda dómsmálaráðuneytisins færðust einnig til embættis ríkislögreglustjóra.

„Með lögreglulögum var stigið mikilvægt skref til grundvallarbreytinga á skipulagi æðstu stjórnar lögreglunnar og starfsemi lögreglunnar í landinu,“ segir á vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert