Borgin fylgi málinu eftir alla leið

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni OR, …
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni OR, á fundi stjórnar OR sem fór fram í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

„Við fengum stjórnarformann Orkuveitunnar á fundinn til okkar ásamt einum stjórnarmanni og fórum yfir málin saman. Stjórn upplýsti borgarráð um það hvernig málum er háttað og við fengum ágætisinnsýn í huga stjórnarinnar í dag um framhaldið og fréttir af úttektinni og hvernig henni verði háttað,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Bréf frá lögfræðingi Áslaugar Thelmu Einarsdóttur barst inn á stjórnarfund Orkuveitu Reykjavíkur í gærkvöldi og verður tekið fyrir á næsta stjórnarfundi OR á mánudag, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni. Vísir greindi fyrst frá því og segir í frétt Vísis að í erindinu sé þess krafist að stjórn OR taki afstöðu til „marklausrar uppsagnar“ Áslaugar, sem áður hafði sagst ætla að leita réttar síns gagnvart Orkuveitunni.

Borgarráð tekur ekki fyrir einstaka mál starfsmanna, en Þórdís Lóa segir að borgarráð hafi lagt á það „mikla áherslu“ að í úttektinni sem senn verður unnin innan OR verði „farið ofan í allt þetta ferli, meðal annars hennar uppsögn og fleiri ef þær eru fyrir hendi,“ jafnvel aftur í tímann svo að skýr mynd dragist upp fyrir borgaryfirvöldum.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst bara mjög mikilvægt að við sættum okkur ekki við starfsumhverfi þar sem er áreitni, dylgjur og kynferðisleg áreitni. Við eigum aldrei að sætta okkur við slíka vinnustaði. Þess vegna verðum við að vera ekki bara með ferla og stefnur í orði, sem við sannarlega erum með, heldur verðum við að fylgja þessu eftir alla leið,“ segir Þórdís Lóa.

Hún bætir við að það að vera stjórnandi snúist alltaf um að vinna með fólki. Það verði að gera vel og það verði Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi að hafa í huga, alltaf.

„Þetta er verkefni sem má aldrei gleyma,“ segir Þórdís Lóa og bætir við að borgin vilji ekki og eigi ekki að líða fyrirtækjamenningu þar sem dylgjur og áreitni eiga sér stað.

Vill gefa úttektaraðilum frið

Þórdís Lóa vill ekki svara því hvort forstjóri Orkuveitunnar, Bjarni Bjarnason, geti haldið áfram í starfi ef úttekt leiðir í ljós að hann hafi ekki brugðist við ábendingum um vítaverða framkomu fyrrverandi framkvæmdastjóra gagnvart kvenkyns undirmönnum, sem Áslaug Thelma segir að hafi verið ítrekaðar af sinni hálfu.

„Ég vil gefa stjórninni og úttektaraðilunum frið til þess að fara og vinna úttektina og það skiptir öllu máli hvað kemur út úr henni. Við erum ekkert að ákveða eitthvað fyrir fram, við bara bíðum, þetta er algjörlega fyrir utan okkar valdsvið, þetta er óháð rannsókn sem verður gerð af innri endurskoðun Reykjavíkurborgar og óháðum aðilum,“ segir Þórdís Lóa.

Stjórn OR mun taka afstöðu til bréfs frá lögfræðingi Áslaugar …
Stjórn OR mun taka afstöðu til bréfs frá lögfræðingi Áslaugar Thelmu á mánudag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is