Eltur inn á Shooters af manni í Armani-bol

Einn maður er enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins á grundvelli …
Einn maður er enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins á grundvelli almannahagsmuna. mbl.is/Eggert

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manni sem grunaður er um að hafa verið einn þeirra sem stórslösuðu dyravörð á skemmtistaðnum Shooters í Austurstræti í lok ágúst er atburðarásinni þetta kvöld lýst frá sjónarhorni vitna.

Úrskurðurinn er frá 28. ágúst en var ekki birtur á vef Landsréttar fyrr en í dag, væntanlega sökum rannsóknarhagsmuna.

Fjórir íslenskir ríkisborgarar voru upphaflega handteknir vegna málsins, en gæsluvarðhald yfir þremur þeirra rann út 7. september síðastliðinn og var þeim þá sleppt.

Farið var fram á að einn sakborninga sætti fjögurra vikna gæsluvarðhaldi til viðbótar á grundvelli almannahagsmuna og sá er enn í haldi.

Vitni sagði 5-6 menn hafa tekið þátt í árásinni

Þar er því lýst að lögregla var kölluð til kl. 02:16 aðfaranótt sunnudagsins 26. ágúst, en þá hafði verið tilkynnt um slagsmál á Shooters. Er lögregla mætti á staðinn tók á móti þeim dyravörður staðarins, sem vísaði þeim á annan dyravörð, sem lá hreyfingarlaus neðst í tröppum við bakdyr skemmtistaðarins.

Sá dyravörður varð fyrir alvarlegum mænuskaða í árásinni, en hinn dyravörðurinn hlaut áverka í andliti, roða og mar eftir ítrekuð hnefahögg.

Dyravörðurinn sem lögregla ræddi við sagði að dyraverðirnir tveir hefðu í sameiningu vísað manni út af Shooters sökum láta og ónæðis í garð annarra viðskiptavina. Sá maður hafði verið á staðnum ásamt vini sínum við drykkju.

Skömmu síðar kom hann til baka ásamt hópi annarra, sem veittust að dyravörðunum við innganginn. Vitni að árásinni segir að mennirnir hafi verið 5-6 talsins og að á einhverjum tímapunkti hafi dyravörðurinn sem hlaut hin alvarlegu meiðsli hlaupið inn á staðinn til að forðast árásina og í átt að öðrum útgangi staðarins.

Á eftir honum hljóp maður í bol sem merktur var ítalska tískuvöruframleiðandanum Armani, að sögn vitnisins.

„Þegar þeir voru komnir í hvarf á bak við vegg heyrði vitnið brothljóð og skömmu síðar fóru allir mennirnir af vettvangi,“ segir í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Árásin á dyraverðina vakti mikinn óhug, enda afleiðingar hennar sérlega alvarlegar. Dyraverðir í miðborginni hafa talað sig saman um að stofna samtök dyravarða, til þess að beita sér fyrir breytingum sem bæti öryggi þeirra.

Trausti Már Falkvard Traustason dyravörður og vinur þess sem slasaðist illa í árásinni á Shooters sagði við mbl.is í lok ágúst að eigendur skemmtistaða væru oft að spara sér skildinginn með því að hafa „eins fáa dyraverði á vakt og mögulegt er“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert