Sjálfboðaliði græðir upp auðnina

Jóhannes Kristjánsson landgræðslumaður tók upp á því fyrir ellefu árum …
Jóhannes Kristjánsson landgræðslumaður tók upp á því fyrir ellefu árum að græða upp uppblásið og illa farið svæði sunnan við Þórisjökul. Sáningin hefur sannarlega borið árangur. mbl.is/Árni Sæberg

Ljósmyndari Morgunblaðsins rak upp stór augu þegar hann sá stafina SÁ spretta upp úr berangursmel sunnan við Þórisjökul þegar flogið var þar yfir. Jóhann Kristjánsson landgræðslumaður tók upp á því fyrir ellefu árum að græða þarna upp uppblásið og illa farið svæði. Hann hefur farið þangað á hverju vori síðan og sáð og borið á.

„Þetta er beringspuntur sem ég setti þarna niður fyrir um fjórum árum til að vekja athygli á því að það er hægt að sá í svona mela og fá upp góðan gróður,“ segir Jóhann Kristjánsson landgræðslumaður.

Hann hefur farið á hverju vori í ellefu ár með nokkra stóra sekki af fræi og nokkur hundruð kíló af áburði þarna upp eftir. „Svo hef ég dundað mér við að bera á örfoka land þar sem er sviðin jörð,“ segir Jóhann. Svæðið sem um ræðir er suðaustan við Þórisjökul og norðan við línuveginn við Skjaldbreið. Ef það gerði rok um það leyti sem Jóhann byrjaði á landgræðslunni mátti sjá moldina hverfa af svæðinu í 12-15 kílómetra löngum stróki.

„Þegar við erum komin í 400-500 metra hæð er moldin mjög dýrmæt. Það tók margar aldir fyrir jarðveginn sem þarna fauk út í buskann að byggjast upp. Það er ekki lengur taumlaus beit á þessu svæði en eftir 1870 var hún alveg taumlaus. Þetta er svæðið sem Jónas Hallgrímsson orti um í ljóðinu Skjaldbreiður og kallaði Lambahlíðar, því þarna var fullt af lömbum. Svæðið sem ég vinn á heitir Fíflvellir og er nú örfoka melar og rofabörð. Þar var áður mikill gróður,“ segir Jóhann. Hann segir að örfá rofabörð sem eru eftir séu til vitnis um hvað gróðurþekjan var þykk og mikil. Nú er hún að mestu fokin út í veður og vind.

Landgræðslumaðurinn Jóhann Kristjánsson deifir áburði og grasfræinu með skóflu. Fljótt …
Landgræðslumaðurinn Jóhann Kristjánsson deifir áburði og grasfræinu með skóflu. Fljótt spretta upp grastoppar sem binda jarðveginn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Jóhann hefur til þessa einbeitt sér að því að græða upp rofabörðin og nokkurra hektara stóra moldarsléttu á svæðinu. Þar safnast leysingavatn á vorin sem ber með sér mikið af mold. Jóhann kveðst einbeita sér að „slökkvistarfinu“, það er að koma í veg fyrir að moldin fjúki burt þar sem uppblásturinn hefur verið mestur.

„Gróðurinn tekur við sér um leið og þessu er sinnt,“ segir Jóhann. Hann hefur fengið upplýsingar og ráðgjöf frá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Landsnet hefur stutt hann mjög vel með því að borga fyrir áburðinn og fræið. Fyrirtækið á raflínur sem liggja yfir svæðið.

SÁ og STEINN

Jóhann fann mel sem hann taldi geyma mjög góðan jarðveg og mundi taka vel við áburðargjöf og fræi. Hann ákvað að sá þar fyrir stöfunum SÁ, sem voru einu stafirnir sem honum komu í hug. Sögnin er honum líka ofarlega í huga eftir allt landgræðslustarfið. Hann prentaði stafina út, mældi nákvæmlega og skalaði upp. Svo markaði hann fyrir stöfunum á jörðinni með snúru og hælum, bar á reitina og sáði. Áletrunin er um 35 metra breið og rúmlega 12 metra há. Hún leynir sér ekki úr lofti. Stafirnir SÁ eru ekki eina áletrunin sem Jóhann hefur skilið eftir sig í íslenskri náttúru.

„Á sínum tíma fór ég upp á Esjuna með þremur félögum mínum. Í bakpokanum var skilti úr ryðfríu stáli sem stóð á STEINN. Við festum skiltið upp og merktum Steininn,“ sagði Jóhann. „Við getum farið hvenær sem er upp eftir og náð í skiltið sem við settum þarna upp!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert