Köld og hvöss norðanátt

Versnandi akstursskilyrði eru á fjallvegum á norðanverðu landinu vegna snjóþekju.
Versnandi akstursskilyrði eru á fjallvegum á norðanverðu landinu vegna snjóþekju. mbl.is/RAX

Snjóþekja er á fjallvegum á norðanverðu landinu, til dæmis á Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Búast má við versnandi akstursskilyrðum og er vegfarendum ráðlagt að sýna aðgát.

Gul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og á miðhálendinu.

Köld og hvöss norðanátt verður áfram ríkjandi í dag og á morgun og henni fylgir talsverð úrkoma á Norður- og Austurlandi, yfirleitt rigning við sjóinn, en lengst af slydda eða snjókoma. Á sunnanverðu landinu er gert ráð fyrir þurrviðri.

Annað kvöld fer styrkur norðanáttarinnar að dvína og úrkoman að minnka og útlit er fyrir rólegt en frekar kalt veður um helgina. Eftir helgi er síðan útlit fyrir að hann snúist í sunnanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, þá hlýnar fyrir norðan og austan.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að af ofantöldum veðurlýsingum megi vera ljóst að haustið er svo sannarlega komið.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Norðan 10-18 m/s, en norðvestan 15-23 austanlands í nótt og fram yfir hádegi á morgun. Talsverð úrkoma á Norður- og Austurlandi, rigning nærri ströndinni, en lengst af slydda og snjókoma ofan 100-200 metra yfir sjávarmáli. Þurrt sunnan- og suðvestanlands. Hiti frá 1 stigi í innsveitum fyrir norðan, upp í 10 stig syðst að deginum. Fer að draga úr vindi og úrkomu annað kvöld.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert