Ný slökkvistöð: stóri, ljóti, grái kassinn

Hugmynd um staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar í Eyjum virðist vera umdeild …
Hugmynd um staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar í Eyjum virðist vera umdeild meðal íbúa.

„Allir vilja hafa okkur en enginn kannast við okkur,“ segir Friðrik Páll Arnfinnsson slökkviliðsstjóri í löngum pistli á Facebook-síðu Slökkviliðs Vestmannaeyja um staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar.

Pistilinn ritar hann undir fyrirsögninni „Ný slökkvistöð (stóri, ljóti, grái kassinn!!!!!!)“, en svo virðist sem töluverð umræða sé í Eyjum um staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar og skiptar skoðanir á því hvar best sé að hafa hana.

Friðrik Páll biður fólk halda ró sinni og láta teikna húsið eins og það eigi að vera og rekur í löngu máli aðdragandann.

„Í ljósi þeirrar umræðu sem nú er farin af stað í nefndum, bæjarstjórn og meðal almennings um byggingu og staðarval nýrrar slökkvistöðvar, sér undirritaður sig knúinn til að koma á framfæri nokkrum staðreyndum um þetta mál og vonandi leiðrétta eitthvað af þeim ranghugmyndum sem fólk virðist vera búið að mynda sér,“ segir í pistli Friðriks Páls sem kveður umræðuna og kröfuna um nýja slökkvistöð ekki vera nýja af nálinni.

Ekki pláss fyrir körfubílinn á stöðinni

Núverandi slökkvistöð sé barn síns tíma og rúmi engan veginn þann búnað og aðstöðu sem starfseminni tilheyrir. „Sem dæmi þá hefur nýi körfubíllinn okkar sem kom í febrúar verið í geymslu úti í bæ því það er ekki pláss fyrir hann á stöðinni.“

Á síðasta ári hafi 12 milljónum af fjárhagsáætlun þessa árs verið veitt til undirbúningsvinnu og hönnunar á nýrri slökkvistöð. Í framhaldi af því hafi þáverandi framkvæmda- og hafnarráð skipað vinnuhóp skipaðan fulltrúum D og E lista, ásamt framkvæmdastjóra og slökkviliðsstjóra, til að finna hentuga staðsetningu fyrir nýja slökkvistöð og skila inn tillögum til ráðsins.



Friðrik Páll segir einhug hafa ríkt innan starfshópsins, sem og núverandi framkvæmda- og hafnarráðs um „mikilvægi þessa verkefnis og hvaða staðarval væri heppilegast fyrir nýja slökkvistöð samkvæmt tillögum vinnuhópsins, framhaldið virtist því lofa góðu, og allir flokkar sammála en.............nei,“ skrifar Friðrik Páll.

Það sem hafi ráðið úrslitum um staðarval hafi verið að staðurinn sé miðsvæðis á eyjunni m.t.t. þjónustusvæðis, þ.e. flugvallar, hafnar og alls þar á milli. Staðsetningin sé einnig við stofnbraut og aðalgatnamót og því gott aðgengi til og frá húsinu í allar áttir og þá sé þegar á svæðinu iðnaðarhúsnæði (kyndistöðin), auk þess sem landrými sé nægt.

Teikningarnar villandi

Núverandi teikning sé hins vegar eingöngu massateikning og á hana áætluð mesta mögulega hæð hússins, í raunveruleikanum megi hins vegar gera ráð fyrir að húsið verði lægra en massateikningin segi til um.

Lítil sem engin hætta sé heldur á að ný slökkvistöð skyggi á Landakirkju eða annað í umhverfinu og það sé meðal þeirra þátta sem horft hafi verið til við staðarval. „Það er því miður allt of algengt að fólk láti sér nægja eina hlið á málum til að mynda sér skoðun á þeim og þannig virðist það einmitt vera eftir að þessi umræða fór í loftið,“ segir Friðrik Páll.

Hann skuli líka vera fyrstur til að samþykkja að teikningarnar sem birtar voru á netinu séu villandi og gefi ekki rétta mynd af húsnæðinu sem hugmyndin sé að rísi þarna.

„Þarna er um að ræða svokallaða massa teikningu sem einungis sýnir gróflega húsnæðið og skuggamyndun af því í umhverfinu. Það er því algjörlega fráleitt að halda það að svona verði endanlegt útlit hússins þ.e. stór, ljótur, grár kassi. Einfaldast og eðlilegast hefði verið að biðja um nánari útskýringar og eða betri teikningar til að átta sig betur á umfangi og útliti,“ segir Friðrik Páll.

„Þetta er ekki bara eitthvað [sic] hús, bílapartasala eða skítugur iðnaður, þetta er þjónustustofnun í bráða- og öryggisþjónustu við bæjarbúa, þetta er samfélagsverkefni og við eigum að geta sameinast um það að búa vel að allri okkar bráðaþjónustu og sjá til þess að hún sé vel mönnuð og tækjum búinn [sic] til þess að takast á við þau verkefni sem hún fær upp í hendurnar, við erum á eyju, það er enginn annar að fara að koma og redda okkur.“

Staðsetning slökkvistöðvar sem slík breyti heldur engu um þörfina á húsnæðinu og því biðli hann til almennings og ráðamanna að halda ró sinni og láta teikna og hanna húsið og eins og það raunverulega kæmi til með að líta út í umhverfinu. „Ég er þess fullviss að fólk á eftir að líta þetta öðrum augum þegar teikningar af fallegri og snyrtilegri byggingu sem við getum verið stolt af, verða tilbúnar. Verum ekki á móti bara til að vera á móti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert