Thomas vill mæta í skýrslutöku í Landsrétti

Thomas Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra.
Thomas Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra. Kristinn Magnússon

Thomas Møller Ol­sen, sem dæmdur var í nítj­án ára fang­elsi fyr­ir að hafa myrt Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar í fyrra og stór­fellt fíkni­efna­brot, mun mæta í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti þegar það verður tekið fyrir. Þá mun hann einnig máta úlpu sem fannst blóðug um borð í Polar Nanoq og ákæruvaldið telur að hann hafi átt á þeim tíma sem brotið átti sér stað. Þetta var meðal þess sem kom fram í undirbúningsþinghaldi við Landsrétt í dag.

Verjandi Thomasar fór fram á að ný skýrsla yrði tekin af honum, en gat þó ekki gert nákvæmlega grein fyrir því hvað Thomas yrði spurður út í. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og saksóknari í málinu gerði ekki athugasemd við að Thomas kæmi fyrir réttinn, en sagði að ákæruvaldið myndi að öllu óbreyttu ekki gera ráð fyrir að taka skýrslu af honum.

Undirbúningsþinghald fór fram í máli gegn Thomas Möller Olsen í …
Undirbúningsþinghald fór fram í máli gegn Thomas Möller Olsen í Landsrétti í dag. mbl.is/Þorsteinn

Þá er einnig uppi ágreiningur í málinu um fyrrgreinda úlpu og sagði verjandinn að Thomas vildi máta úlpuna fyrir réttinum til að athuga hvort hún væri hans eða ekki. Úlpan er miðstærð (medium), en Thomas var 94 kíló og 184 sentímetrar þegar hann var handtekinn. Tók dómari reyndar fram að best væri ef ákæruvaldið kæmi með vigt þannig að hægt væri að athuga hvort Thomas væri ekki svipaður að stærð og hann var í janúar.

Auk Thomasar var farið fram á að tæknimaður frá Securitas kæmi og gæfi skýrslu við þinghaldið, en það tengist tæknilegum atriðum við upptökur sem voru teknar á öryggismyndavélar við flotkvína við Hafnarfjarðarhöfn og við golfskálann í Hnoðraholti í Garðabæ.

Þá óskaði ákæruvaldið og verjandi Thomasar eftir því að rannsóknarlögreglumaður, sem hafði yfirumsjón með nýrri mælingu á akstri Thomasar föstudaginn og laugardaginn helgina sem Birnu var ráðinn bani, komi og gefi skýrslu.

Verjandinn vildi einnig að haffræðingurinn Jón Ólafsson kæmi og gæfi skýrslu vegna matsgerðar sinnar varðandi það hvar líklegt er að Birnu hafi verið komið fyrir. Eins og mbl.is hefur greint frá er deilt um hvort mögulegt sé að Birna hafi verið keyrð alla leið að Óseyrarbrú. Saksóknari telur slíkar röksemdir þó ekki eiga við þar sem nýja mælingin sýni að akstur að Óseyrarbrú passi innan þess óútskýrða aksturs sem er uppi.

Þá fer verjandi jafnframt fram á að tekin verði skýrsla af tveimur mönnum til viðbótar. Hafði lögreglan þegar tekið skýrslu af öðrum þeirra, sem var skipverji á Polar Nanoq. Hafði hann verið farþegi í bílnum á föstudaginn ásamt þeim Thomasi og Nikolaj Olsen, sem var einnig handtekinn á sínum tíma vegna málsins en var ekki ákærður. Seinni maðurinn er vinur Nikolaj og hringdi Nikolaj í hann um nóttina.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í Landsrétti í dag.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í Landsrétti í dag. mbl.is/Þorsteinn

Ákæruvaldið sagðist ekki gera athugasemd við að þessi vinur Nikolaj gæfi skýrslu, en að hafa þyrfti í huga að vörnin gengi út á að það væri annar gerandi en Thomas, þ.e. Nikolaj. „Við teljum þessi atriði fráleit,“ sagði Sigríður, en bætti við að hún legðist ekki gegn því að maðurinn yrði fenginn fyrir dóm.

Dómari málsins mun nú fara yfir kröfur saksóknara og verjanda og ákveða af hverjum skýrslur verða teknar og hvað verði lagt fyrir dóminn. Í kjölfarið verður ákveðin dagsetning fyrir aðalmeðferð málsins. Sagði dómarinn að líklega gæti aðalmeðferðin tekið alla vega einn dag, jafnvel lengri tíma.

mbl.is