Tveir aldnir á afréttinum

Olgeir Engilbertsson og Weapon-jeppinn hans eiga að baki margar ferðir …
Olgeir Engilbertsson og Weapon-jeppinn hans eiga að baki margar ferðir inn á Landmannaafrétt í tengslum við smalamennsku. mbl.is/RAX

Segja má að Olgeir Engilbertsson í Nefsholti og Weapon-jeppinn hans séu nánast orðnir hluti af landslaginu á Landmannaafrétti. Nú er að ljúka 57. ferð Olgeirs þangað í fjárleitir og þeirri 42. sem hann fer á 65 ára gömlum jeppanum. Olgeir er aðeins eldri en jeppinn, fæddur 1936, og varð 82 ára í sumar. Síðasti smaladagurinn í fyrstu leitum var í gær og í dag verður réttað í Áfangagili eftir göngur síðan á föstudag. Samkvæmt gamalli hefð var lagt af stað á föstudegi í 22. viku sumars.

„Það er eitthvað búið að þvælast á honum hérna,“ sagði Olgeir um Weapon-jeppann. „Ég fékk hann 1977 og átti annan eins í tíu ár á undan þessum. Sá var orðinn sundurryðgaður. Þessi var langtum heillegri.“

Olgeir dregur kerru með vistum og búnaði fyrir gangnamennina. Jeppinn …
Olgeir dregur kerru með vistum og búnaði fyrir gangnamennina. Jeppinn er líka fullhlaðinn. mbl.is/RAX

Upphaflega hersjúkrabíll

Olgeir segir að þessir bílar hafi upprunalega verið notaðir sem sjúkrabílar hjá bandaríska hernum, meðal annars í Kóreustríðinu. Þegar Olgeir fékk bílinn sem hann á nú var í honum biluð bensínvél. Hann færði vélina úr ryðgaða bílnum yfir í þennan. Á endanum gaf hún sig og árið 1981 var sett Ford-dísilvél í Weaponinn og hún gengur enn. Vélin var farin að bræla mikið í fyrra en þá gaf kunningi Olgeirs honum olíuverk sem var sett við. Nú reykir vélin ekki neitt.

Á yngri árum tók Olgeir þátt í sjálfri smalamennskunni en nú sér hann um að flytja mat, gas, olíu og ýmsan búnað fyrir gangnamennina á milli áningarstaða. Ráðskonur sjá um matseldina fyrir úthaldið. Heilmargt fólk á öllum aldri tekur þátt í smalamennskunni. Olgeir segir að 50-60 manns og jafnvel fleiri mæti í matinn þegar flest er.

Greinin í heild birtist í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert