Vilja lækka skatta á tíðavörur

Túrtappar verða ódýrari, verði frumvarpið að lögum.
Túrtappar verða ódýrari, verði frumvarpið að lögum. mbl.is/ÞÖK

Tíðavörur og getnaðarvarnir falla í lægra þrep virðisaukaskatts, verði nýtt frumvarp, sem þingmenn Pírata, Samfylkingar, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram, samþykkt. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Píratar er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Með frumvarpinu er lagt til að tíðavörur á borð við dömubindi, túrtappa og álfabikara, ásamt öllum tegundum getnaðarvarna, verði færð úr efra þrepi virðisaukaskatt niður í það neðra og beri því við gildistöku laganna 11% virðisaukaskatt en ekki 24% eins og nú er.

„Markmið frumvarpsins er [að] stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Þar er einnig bent á að með þessum leiðréttingum myndi Ísland færast nær þeirri þróun sem hefur orðið í öðrum ríkjum með tilliti til aðgengis að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum á undanförnum árum. 

Sama frumvarp var lagt fram í mars í fyrra, meira að segja með sömu ritunarvillu, þar sem orðið „að“ vantar í setninguna þar sem markmiðum frumvarpins er lýst og vitnað er til hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert