Ákvarðanirnar á ábyrgð borgarinnar

Heildarkostnaður við framkvæmdina eru 415 milljónir króna.
Heildarkostnaður við framkvæmdina eru 415 milljónir króna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Minjastofnun hefur ekki sett fram kröfur um endurgerð húsa í Nauthólsvík, bragga, skála og náðhúss, enda falla húsin ekki undir ákvæði laga um menningarminjar, sem stofnunin starfar eftir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Minjastofnun vegna umfjöllunar um endurbyggingu húsanna.

Framkvæmdin, sem er á vegum Reykjavíkurborgar, hefur farið 257 milljónir fram úr kostnaðaráætlun og er framkvæmdakostnaður alls 415 milljónir.

„Samkvæmt lögunum getur ráðherra friðlýst hús samkvæmt tillögu Minjastofnunar og hefur ekki verið gerð tillaga að friðlýsingu bygginga við Nauthólsvík. Einnig kveða lögin á um að öll hús sem eru 100 ára eða eldri séu friðuð og að leyfi Minjastofnunar þurfi til breytinga á þeim. Að auk er skylt að leita álits Minjastofnunar varðandi breytingar á húsum sem byggð eru 1925 eða fyrr. Byggingar við Nauthólsvík eru frá tímum síðari heimstyrjaldar og því á hvorugt þessara ákvæða við um þau,“ segir í tilkynningu Minjastofnunar.

Þar er einnig bent á að samkvæmt deiliskipulagi Nauthólsvíkur sem var samþykkt árið 1998 var gert ráð fyrir stríðsminjasafni í endurbyggðum bröggum á svæðinu þar sem umræddur braggi stendur. Reykjavíkurborg breytti því deiliskipulagi árið 2013, á þá vegu að á staðnum skyldi vera veitingarekstur og þjónusta.

Í tilkynningunni frá Minjastofnun segir einnig að árið 2016 hafi A-arkitektar leitað eftir áliti stofnunarinnar á fyrirhugaðri endurgerð húsanna. Þar sem húsin eru byggð eftir 1925 var þeim ekki skylt að leita álits, en Minjastofnun veitir þó álit á breytingum yngri húsa ef eftir því er leitað.

„Minjastofnun veitti slíkt álit með bréfi til A-arkitekta þann 25. júlí 2016 og eins og þar kemur fram fagnaði stofnunin farsælli lausn á endurbyggingu húsanna og taldi að með tillögunni tækist vel að varðveita sérkenni merkra sögulegra minja frá stríðsárunum um leið og húsin eru aðlöguð að nýrri starfsemi,“ segir í tilkynningu Minjastofnunar, sem vill þó árétta að ákvarðanir um endurgerð braggans og annarra húsa í Nauthólsvík eru á ábyrgð Reykjavíkurborgar, enda í samræmi við gildandi deiliskipulag Nauthólsvíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert