Hætt við göngugötur í miðborginni í vetur

Hætt hefur verið við að framlengja lokun á götum í …
Hætt hefur verið við að framlengja lokun á götum í miðborginni út árið. Tillaga um varanlegar göngugötur verði hins vegar mótuð í vetur og muni liggja fyrir í vor. mbl.is/Eggert

Horfið hefur verið frá því að fram­lengja út árið það fyr­ir­komu­lag sem verið hef­ur á göngu­göt­um í miðbæn­um í sumar. Í fréttatilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í dag kemur fram að tímabili göngugatna í miðborginni ljúki 1. október næstkomandi og þá verði um leið opnað aftur fyrir bílaumferð. Tillaga um varanlegar göngugötur verði hins vegar mótuð í vetur og muni liggja fyrir í vor.

Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs á til­lögu skrif­stofu sam­göngu­stjóra og borg­ar­hönn­un­ar um að fram­lengja göngugötufyrirkomulagið út árið hefði verið frestað. Sagði Krist­ín Soffía Jóns­dótt­ir, full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í ráðinu, við það tækifæri að skýr­ustu skila­boðin sem borgaryfirvöld geti sent sé að hafa göt­urn­ar sem göngu­göt­ur áfram og fá reynslu á þær í stað þess að taka upp eitt­hvert milli­bils­ástand.

Trúum því að samráð sé rétta leiðin

Eyþór Lax­dal Arn­alds, full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í skipu­lags- og sam­gönguráði Reykja­vík­ur, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að málið hafi ekki verið tekið fyrir á ný í skipu­lags- og sam­gönguráði og að sér sé ekki kunnugt um hvers vegna hafi verið hætt við að hafa göngugötufyrirkomulagið áfram í vetur.

„Við bókuðum mótmæli á fundinum í síðustu viku af því að það hafði verið samþykkt í borgarstjórn að ekki hefði verið haft ítarlegt samráð íbúa, kaupmenn og aðra hópa, eins og aldraða og fatlaða sem þurfa að komast leiðar sinnar,“ segir Eyþór. Í kjölfarið hafi afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs verið frestað. „Svo kom tilkynning núna áðan um að hætt hefði verið við lokunina í vetur.“

Hann kveðst ánægður með að hætt hafi verið við göngugötufyrirkomulagið í vetur. „Þá gefst vonandi tími til að ræða við kaupmenn og íbúa og hlusta á aðra sem þurfa að komast um,“ segir hann. „Þetta er mjög umdeilt mál og við trúum því að samráð sé rétta leiðin þegar þannig er.“

Í tilkynningu borgarinnar segir að umhverfis- og skipulagssviði hafi nýlega verið falið af borgarráði að útfæra tillögur að göngugötum til framtíðar á völdum svæðum í miðborginni og að í samráðsferlinu muni hagsmunaaðilum gefast kostur á að taka þátt í hönnunarferlinu og haldnir verði vinnustofufundir í tengslum við málið og sérstakur opnunarfundur verkefnisins verði í október.

„Hönnunin mun taka mið af bættu aðgengi inn í verslanir þar sem því verður við komið. Samhliða verður unnið deiliskipulag fyrir þær göngugötur sem verða til framtíðar,“ segir í tilkynningunni. „Tekið verður  tillit til vörulosunar og annarra þátta. Þá verður hugað að útiveitinga- og markaðssvæði á þessum götum, sögulegum tengingum og ýmsu öðru sem göngugöturnar bjóða upp á.“

Markmiðið sé að efla miðborgina, auka vellíðan vegfarenda og bæta aðgengi að verslun og þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert