KSÍ mun fara vel með „Húh!-ið“

„Húh!-ið
„Húh!-ið" tekið á leik Íslands og Argentínu á HM í sumar. mbl.is/Eggert

„Það er ánægjulegt að við séum komin með réttinn á „Húh!-ið“. Þetta hefur verið samnefnari fyrir okkar stuðningsmenn og liðið og víkingaklappið er orðið þekkt um allan heim,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ.

Gunnar Þór Andrésson, sem hafði tryggt sér einkaleyfi á vörumerkinu „Húh!“ hefur náð samkomulagi við KSÍ um að knattspyrnusambandið taki yfir vörumerkjaskráninguna. Í fréttabréfi KSÍ kom fram að Gunnar hefði haft samband við KSÍ af fyrra bragði og vildi að sambandið tæki skráninguna yfir án greiðslu.

Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Guðni segir að KSÍ muni fara vel með vörumerkjaréttinn í framtíðinni og passa upp á að hann sé, ef til komi, rétt notaður og til heilla fyrir íslenskan fótbolta.

Spurður hvort markaðssetning sé fyrirhuguð segir formaðurinn að það eigi eftir að fara betur yfir hvernig rétturinn verður nýttur í framtíðinni. „Það er eitthvað sem við gerum að vel yfirlögðu ráði,“ segir hann og kann Gunnari Þór bestu þakkir fyrir gefa KSÍ réttinn. „Við munum fara með þennan rétt af virðingu. Þetta er vörumerki okkar stuðningsmanna og vonandi getum við notað þetta á skemmtilegan máta í framtíðinni.“

„Slær mig sem góð viðskiptahugmynd“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og stuðningsmaður Stjörnunnar, tjáir sig um þessi tíðindi á Facebook-síðu sinni. Hann rifjar upp söguna á bakvið „Húh!-ið“ og talar um að hún hafi byrjað með heimsókn Stjörnunnar til skoska liðsins Motherwell í Evrópukeppninni árið 2014. Þeir hafi kennt okkur „Húh!-ið“.

Hann minnist þess er „Húh!-ið“ var tekið á leik Inter og Stjörnunnar á Laugardalsvelli og síðan þá hafi það verið hluti af stemningunni á Stjörnuleikjum. Í framhaldinu fóru stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu að nota það.

„Inn í þessa sögu blandast svo einkaleyfaréttur og áhugi manna á að tengja húh! við vörusölu. Það slær mig sem góð viðskiptahugmynd en nú er það komið á hreint að það er bara KSÍ sem má tengja þennan ágæta baráttusöng Motherwell við sölu á fatnaði og drykkjum,“ skrifar Bjarni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert