Leita að liðsafla í stærstu björgunarsveitina

Landsbjörg hefur unnið óeigingjarnt starf í 90 ár.
Landsbjörg hefur unnið óeigingjarnt starf í 90 ár. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Söfnunarþáttur fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg verður sýndur á Stöð 2 í opinni dagskrá annað kvöld, klukkan 19.25. Þar verður leitast við að tryggja félaginu sem flesta bakverði sem styrkja félagið með mánaðarlegum framlögum. Þátturinn mun einnig varpa ljósi á óeigingjarnt starf björgunarsveita og slysavarnadeilda um land allt.

„Við höfum stundum kallað bakvarðasveitina stærstu björgunarsveit landsins,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann segir framtakið mikilvægt fyrir Landsbjörg og ekki síður landann sem Landsbjörg hefur þjónað í áraraðir. Stuðningur landsmanna skiptir sköpum fyrir félagið að sögn Jóns, sem bætir við að félagið yrði ekki rekið með sjálfboðavinnu yfir öll 90 árin nema með öflugum stuðningi fyrirtækja og einstaklinga í landinu.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar.
Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar. Sigurður Bogi Sævarsson

3-5 útköll á dag

Að meðaltali sinnir Landsbjörg 3-5 útköllum á dag en öllum útköllum sinna sjálfboðaliðar sem þurfa gjarnan að skreppa úr vinnu þegar kallið kemur. Aukin þörf hefur verið á stærri og flóknari leitaraðgerðum hjá Björgunarsveitinni sem útheimtir mikinn mannskap og tækjabúnað. Þar má nefna nýlegt dæmi þar sem ferðamaður varð strand á Torfajökli þar sem aðstæður á svæðinu voru orðnar lífshættulegar og miklir vatnavextir á svæðinu. Lið Landsbjargar kom úr tveimur áttum og náði þannig að bjarga manninum.

„Við getum sýnt fram á það að á bak við útkall í hverja klukkustund á mann liggur að minnsta kosti tólf klukkustunda vinna, t.d. fjáraflanir, menntun, þjálfun og æfingar og svo lengi mætti telja. Atriðið er að geta brugðist hratt við og það kostar mikla peninga að hafa allt sem þarf til reiðu,“ segir Jón. Hann bætir við að t.d. standi til að hefja viðamikla endurnýjun á björgunarbátaflotanum. Breyttir tímar og umhverfi kalli á hentugri búnað.

Sjálfboðaliðar hafa hætt sér á ýmsa staði á hálendinu.
Sjálfboðaliðar hafa hætt sér á ýmsa staði á hálendinu. Sigurður Bogi Sævarsson

Jón segir að algengur misskilningur sé að mestir fjármunir fari í útköllin. Kostnaðurinn við hvert útkall er ekki mestur, en frekar tækin og búnaðurinn sem þarf að vera til staðar. „Allar okkar sveitir eru í sjálfboðastarfi en það sem kostar mest í útkallinu er kannski stuðningur vinnuveitenda. Flestir hleypa fólki á launum til þess að sinna hjálparstarfinu,“ segir Jón.

Hálendisvaktin gegnir mikilvægu starfi en staðsetning hennar er breytileg. Bættar samgöngur hafa dregið úr þörf hennar á nokkrum stöðum en heimsóknarstaðir ferðamanna geta aukið þörfina annars staðar. „Þetta stýrist mikið af fjölda ferðamanna en líka þessum aðstæðum í náttúrunni sem kalla á þetta,“ segir Jón.

Forvarnir hafa skilað árangri

Slysavarnadeildir Landsbjargar gegna ekki síður mikilvægu hlutverki en björgunarsveitirnar. Forvarnir og fræðsla fyrir ferðamenn er að skila sér vel, að sögn Jóns. Aðstoðarbeiðnum hafi fækkað en þó sé almennt strembið að mæla forvarnir og árangur þeirra.

Í þættinum verða birtar myndir frá raunverulegum æfingum og verður farið yfir hvers eðlis útköllin eru. Þá gefst fólki tækifæri á að hringja og gerast bakverðir eða styrkja starfið með frjálsum framlögum. „Það er náttúrlega aldrei ofþakkað hvernig samfélagið keyrir þetta með okkur, þetta er orðið þjóðareign og nokkurs konar sameiningartákn,“ segir Jón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert