„Margþætt mismunun hefur viðgengist“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstofnunum beri að tryggja að viðeigandi áætlanir séu fyrir hendi til að bregðast við áreitni og ofbeldi innan vinnustaða en einnig, og ekki síður, að sinna forvarnarhlutverki sínu þannig að uppræa megi þá menningu sem skarpar farveg fyrir áreitni og ofbeldi.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is þar sem spurt var hvort aðrir ráðherra en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrar, hafi sent bréf og óskað eftir upplýsingum um hvað hefur verið gert til að vinna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Eigum ekki að sætta okkur við þetta

Fram kemur í svarinu að forsætisráðherra hafi 23. apríl sent bréf á alla ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem þeir voru hvattir til að bregðast skipulega við #metoo-bylgunni, bæði út á við og inn á við gagnvart ráðuneytum og undirstofnunum. Þetta var gert að tillögu stýrihóps um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi en hópurinn var skipaður af forsætisráðherra í febrúar.

„#metoo bylgjan hefur afhjúpað umfangsmikla kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi, bæði innan og utan vinnumarkaðar. Við sem samfélag eigum ekki að sætta okkur við þetta. Þess vegna hef ég hvatt öll ráðuneyti til að bregðast við ákalli um breytingar og vera sínum undirstofnunum bæði til ráðgjafar og fyrirmyndar í þessum efnum,“ segir Katrín.

Í bréfinu sem hún sendi í apríl eru ráðherrarnir sérstaklega hvattir til að óska eftir upplýsingum frá undirstofnunum sínum og eins að gera forsætisráðherra grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Forsætisráðherra hefur ítrekað tekið málið upp í ráðherranefnd um jafnréttismál sem starfar undir forystu forsætisráðherra. Í svari forsætisráðuneytisins kemur fram að það viti til þess að einhver ráðuneyti hafi nú þegar brugðist við þessari hvatningu og sent undirstofnunum sínum bréf og hefur óskað eftir að ráðuneytin upplýsi forsætisráðherra um niðurstöður slíkra úttekta. Hins vegar hafa ekki hafa borist formleg svör frá öllum ráðuneytum.

Hvað forsætisráðuneytið varðar þá tók ráðherra #metoo upp á fundi forstöðumanna stofnana sem heyra undir forsætisráðuneytið 8. maí. Þá þegar hafði verið sent tölvubréf til allra stofnana forsætisráðuneytisins og kallað eftir upplýsingum um verkefni þeirra á sviði jafnréttismála og hvort og þá hvernig kynja- og jafnréttissjónarmið hafa sérstaklega verið tekin til skoðunar, hvernig greining hafi verið gerð á því hvort aðgerðir eða stefna stofnunar hafi mismunandi áhrif á karla og konur og aðgerðir sem fara mætti í framhaldinu.

Er ekki með upplýsingar um einstaka mál

Jafnframt stendur til að senda stofnunum bréf að nýju og þá sérstaklega með skírskotun til aðgerða að því er varðar kynferðislega og kynbundna áreitni.

Forsætisráðuneytið hefur ekki á þessum tímapunkti upplýsingar um einstaka mál innan ráðuneyta eða undirstofnana en farið verður yfir upplýsingarnar heildstætt þegar þær liggja fyrir.

Stýrihópur um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi hefur það hlutverk að fylgja þessu eftir, funda með lykilaðilum og gera í framhaldinu tillögur um samræmd viðbrögð við #metoo innan stjórnarráðsins. Formaður stýrihópsins og fulltrúi forsætisráðherra hefur því fylgt þessum málum eftir á reglulegum fundum stýrihópsins og mun halda því áfram, að því er segir í svarinu.

Alþjóðleg ráðstefna um #metoo á Íslandi

Einnig er þar minnst á að í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni verður á næsta ári haldin alþjóðleg ráðstefna um #metoo á Íslandi. Undirbúningur ráðstefnunnar er þegar hafinn.

„#metoo sögur kvenna á Íslandi hafa leitt í ljós hvernig margþætt mismunun hefur viðgengist í ólíkum lögum samfélagsins. Þetta sáum við til dæmis á sögum erlendra kvenna en það er einnig vitnisburður út af fyrir sig að margir hópar kvenna sem búa við margþætta mismunun hafa ekki deilt sinni reynslu eða sent út sérstakar áskoranir. Ég tel mikilvægt að við leitum sérstaklega eftir því að reynsla allra kvenna sé tekin til greina við stefnumótun gegn hvers kyns áreitni og ofbeldi,“ segir forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert