Slydda eða snjókoma fyrir norðan

Búast má við slyddu eða snjókomu norðanlands í dag.
Búast má við slyddu eða snjókomu norðanlands í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Útlit er fyrir slyddu eða snjókomu norðanlands í dag, en rigningu eða slyddu á Austurlandi, en snjókomu á heiðum. Á Suðurlandi verður að mestu þurrt, en ekki eins bjart og í gær. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings um veðurhorfur á landinu næstu daga.

Snjóþekja og éljagangur er á Holtavörðuheiði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Hálkublettir eru á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en hálka er á Steingrímsfjarðarheiði. Snjóþekja er á Strandarvegi.

Hálkublettir eru á Vatnskarði, Öxnadalsheiði, Héðinsfiðri, í Ólafsfjarðarmúla og á Víkurskarði. Krapi og éljagangur er á Siglufjarðarvegi. Krapi er á Fljótsheiði og Mývatnsheiði. Þæfingsfærð er á Hólasandi. Þá er þæfingsfærð og snjókoma er á Möðrudalsöræfum og á Fjarðarheiði en krapi á Fagradal og Breiðdalsheiði.

Norðanáttin kveður annað kvöld

Norðanáttin verður áfram ríkjandi í dag, strekkingur eða allhvass vindur að styrk og búast má við hvössum vindstrengjum á Suðausturlandi og Austfjörðum. Í kvöld og nótt dregur síðan úr vindinum og úrkomunni.

Á morgun, laugardag, verður hæg norðlæg átt á landinu og bjartviðri, en norðankaldi og él norðaustan til á landinu. Norðanáttarkaflanum lýkur svo annað kvöld, en þá er útlit fyrir hægan vind um allt land og að frysti víða.

Á sunnudag er útlit fyrir aðgerðalítið og svalt veður. Í byrjun næstu viku gengur væntanlega í stífa sunnanátt með rigningu, þá hlýnar fyrir norðan og austan.

Veðurvefur mbl.is



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert