Stuðningur tryggir festu í starfinu

mbl.is/​Hari

Í kvöld munu fara fram þrjár æfingar Slysvarnarfélagsins Landsbjargar sem eru hluti af kynningar- og fjáröflunarátaki undir yfirskriftinni: Þú getur alltaf treyst á okkur – nú treystum við á þig. Söfnunarþáttur vegna átaksins verður í opinni dagskrá í kvöld og hefst klukkan 19:25. Sýnt verður frá æfingunum í þættinum.

Á Reykjanesbraut við gatnamót að Keili verður æft samkvæmt viðbragðsáætlun vegna hópslysa í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum. Alls verða um 50 leikarar á æfingunni sem verða farðaðir eftir áverkalýsingum til að gefa viðbragðsaðilum verðug og raunveruleg verkefni. Mjög góð þátttaka er hjá langflestum viðbragðsaðilum og má búast við um 150 viðbragðsaðilum á vettvangi.

mbl.is/​Hari

Á Akureyri mun fara fram leitaræfing þar sem æfð verður leit að týndri persónu sem þróast eftir því sem á líður áherslur gætu breyst varðandi leitarsvæði og kringumstæður.

Þá fer fram sjóbjörgunaræfing í Norðfirði þar sem upp kemur eldur í mannlausum bát og hefja þarf leit. Góður fjöldi björgunarskipa og báta frá austurlandi hefur boðað þátttöku í æfingunni.

Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að markmiðið með þættinum sé að varpa ljósi á fjölbreytt og krefjandi verkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

mbl.is/​Hari

„Sjálfboðaliðar eru til taks um allt land ef eitthvað bregður út af  - allan sólarhringinn, alla daga ársins. Allir hafa þeir gengið í gegnum stranga þjálfun sem tryggir rétt og fumlaus viðbrögð sem geta skipt sköpum á ögurstundu. Tækjabúnaður og sérútbúinn bíla- og bátakostur er einnig forsenda þess að náist í tæka tíð til fólks í vanda. Þá þarf að tryggja samhæfð vinnubrögð og viðhalda þekkingu í hæsta gæðaflokki. Allt kostar þetta augljóslega mikla fjármuni.“

Í söfnunarþættinum verður sérstök áhersla lögð á að bjóða almenningi að gerast Bakverðir Landsbjargar, en þeir styðja við bakið á slysavarna- og björgunarstarfi í landinu með mánaðarlegum framlögum. Í tilkynningu segir að slíkur stuðningur skipti félagið gríðarlega miklu máli og tryggi meðal annars ákveðna festu í starfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert