Heildarsýn skortir í Alzheimer-málum

Alzheimer-sjúklingum mun fjölga mjög mikið.
Alzheimer-sjúklingum mun fjölga mjög mikið. Ljósmynd/Thinkstock

„Það má segja að þjónustan sé á margan hátt býsna góð, en það eru of margir sem njóta hennar ekki,“ segir Jón G. Snædal, yfirlæknir og sérfræðingur í öldrunarlækningum, um stöðuna í baráttunni gegn Alzheimer hér á landi, en alþjóðlegi Alzheimerdagurinn er í dag.

Jón nefnir sem dæmi að biðlistar séu fyrir þau úrræði sem læknar telji að henti best. „Á sama tíma er fólk að bíða á röngum stöðum, til dæmis inni á spítalanum, eftir úrræðum sem eru betur veitt annars staðar. Þetta er stóra myndin hér.“

Hann bætir við að framundan séu heilmiklar breytingar, þar sem stóru árgangarnir sem fæddust eftir stríð séu nú að komast á efri ár, sem aftur muni leiða af sér töluverða fjölgun sjúklinga sem bregðast þurfi við. „Enn sem komið er er engin ákveðin stefna í málefnum þessa hóps hér á landi, sem gerir að verkum að stundum vill verða að þær ákvarðanir sem eru teknar byggjast ekki á neinni heildarsýn, heldur bara á stöðunni eins og hún er í dag á þeim stað sem um ræðir.“

Jón segir hins vegar að hann viti til þess að vilji sé til þess hjá heilbrigðisyfirvöldum að bæta úr því og að hann vonist til þess að farið verði í slíka vinnu í vetur. „Við höfum átt samtal við fulltrúa frá ráðuneytinu og ráðherra, og við skynjum að það er áhugi á að skoða þessi mál heildstæðara en gert hefur verið hingað til,“ segir Jón og bendir á að þingsályktunartillaga um þetta hafi verið lögð fram í vor. „Þannig að það er ekki spurning um hvort ráðuneytið vill gera þetta, heldur hvenær.“

Telur að lækning muni finnast

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er sammála Jóni um að heildarsýn skorti í málefnum Alzheimer-sjúklinga. „Þetta er hluti af skorti á almennri heildarstefnu í heilbrigðismálum og af því að Alzheimer-sjúkdómurinn er algengur sjúkdómur hjá eldra fólki og samfélagið er að verða eldra með hverju árinu, þá kreppir skórinn náttúrlega sérstaklega þar.“

Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Kári hins vegar að í stærra samhengi sé hann bjartsýnn á að það muni takast að finna aðferð til að fyrirbyggja og meðhöndla sjúkdóminn, en Íslensk erfðagreining hefur stundað umtalsverðar rannsóknir á honum frá stofnun fyrirtækisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert