Vilja byggja þyrlupall á Heimaey

Þyrla Landhelgisgæslunnar á þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm þingmenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar, um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verði falið að gera ráðstafanir til að Isavia geti hannað og staðsett þyrlupall á Heimaey til að „auka enn frekar öryggi í sjúkra- og neyðarflugi til Vestmannaeyja.“ Þingmennirnir leggja til að verkinu verði lokið ekki síðar en árið 2020.

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks er fyrsti flutningsmaður, en að tillögunni standa einnig fulltrúar Pírata og Framsóknarflokks.

Í greinargerð tillögunnar segir að sjúkraflug til Vestmannaeyja séu um eitthundrað á ári hverju og að þyrlur Landhelgisgæslunnar hafi farið tugi ferða á undanförnum árum til Vestmannaeyja þegar ófært er fyrir sjúkraflugvélar.

„Veður breytast eins og hendi sé veifað í Vestmannaeyjum og það gerist að sjúkraflugvél sem lögð er af stað til Eyja á ekki möguleika á að lenda þar. Þar getur verið mjög misvindasamt, skýjahæð undir 500 fetum og oft krefjandi aðstæður sem sjúkraflugvél ræður ekki við. Við þær aðstæður þarf að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja sjúka eða slasaða til Eyja,“ segir í greinargerðinni og bætt er við að þyrlur Gæslunnar hafi farið við erfiðar aðstæður til Eyja.

Þá hafi stundum komið fyrir að flugvöllurinn á Heimaey hafi verið lokaður fyrir allri umferð og þá hafi þurft að lenda þyrlum við Hamarsveg, vestan Dverghamars.

„Ekkert merkt svæði eða lendingarpallur er í Vestmannaeyjum í slíkum tilfellum og mikilvægt að auka öryggi íbúanna með byggingu þyrlupalls. Staðsetningu þyrlupalls þarf að ákveða í samráði við Isavia í Vestmannaeyjum, yfirstjórn sjúkraflutninga HSU, Flugdeild Landhelgisgæslu Íslands og skipulagsyfirvöld í Vestmannaeyjum,“ segja flutningsmenn tillögunnar.

Veður í Vestmannaeyjum geta verið válynd og stundum verður að …
Veður í Vestmannaeyjum geta verið válynd og stundum verður að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sinna sjúkraflugi þangað. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert