Svandís mun ekki áfrýja dóminum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun ekki áfrýja dómi héraðdóms.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun ekki áfrýja dómi héraðdóms. mbl.is/Eggert

Heilbrigðisráðuneytið mun ekki áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ölmu Gunnarsdóttur. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í þættinum Vikulokin hjá Helga Seljan í morgun.

Íslenska ríkið tapaði í vikunni máli fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur sem sér­fræðilækn­ir­inn Alma Gunn­ars­dótt­ir höfðaði vegna ákvörðunar Sjúkra­trygg­inga Íslands um að synja henni um aðild að ramma­samn­ingi. Var ákvörðun Sjúkra­trygg­inga felld úr gildi og rík­inu gert að greiða Önnu 1,8 millj­ón­ir í máls­kostnað.

Sagðist Svandís, eins og forverar hennar í embætti, þurfa að horfa til þess að fjárheimildir Alþingis séu uppurnar og að reisa verði skorður við því að áfram fari út úr ríkissjóði fé sem er umfram ákvörðun Alþingis. „Það eru til dómar þar sem það þykir nægileg ráðstöfun að vísa bara til fjárlaga,“ sagði Svandís.

„Ég hef farið yfir niðurstöðu dómsins með ríkislögmanni og eins og alltaf er, þá eru ákveðin sjónarmið sem mæla með áfrýjun og ákveðin sjónarmið sem mæla á móti áfrýjun,“ bætir hún við.

Í miðjum klíðum að ákveða hvað taki við

Hennar niðurstaða í máli Ölmu sé þó að áfrýja ekki. „Það er mikilvægt fyrir alla hlutaðeigendur að að fá niðurstöðu í málinu og við erum í miðjum klíðum að ákveða hvað á að taka við.“ Kveðst Svandís ekki telja það málinu til framdráttar að standa í frekari málaferlum. Dómurinn er vel ígrundaður og niðurstaðan er leiðbeining.

„Hann undirstrikar mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag verði endurskoðað. Ekki bara samningurinn eins og hann er, heldur líka framkvæmd hans og þá í samræmi við ábendingar sem við höfum frá ríkisendurskoðun um að ríkið, sem greiðir þjónustuna, hafi frumkvæði að því og skoðun á því hvaða heilbrigðisþjónusta er keypt, í hvaða magni og af hverjum.“

Spurð hvort núverandi samningur sé dæmi um lélega stjórnsýslu og pólitík, að gerður hafi verið opinn samningur sem farið sé að stíga inn í eftir á, segir Svandís: „Það virðist hafa verið þannig frá byrjun að allir, nema einn, sem sóttu um hafi komist inn í samninginn hindrunarlaust.“ Síðan hafi verið tekin einhliða ákvörðun um að loka án þess að það sé skoðað hjá hverjum og einum.

Ríkisins að ákveða hvaða þjónusta sé keypt

Segist Svandís hafa óskað eftir greinargerð um ferlið og afgreiðslu málsins í ráðuneytinu. „Mér finnst mikilvægt að það liggi fyrir hvaða lögfræðileg ráðgjöf og faglegar forsendur lágu til grundvallar þessum ákvörðunum.“ Ekki detti neinum í hug að það sé sama pólitíska leiðarljósið sem hafi dirfið áfram alla þrjá ráðherrana, hana, Óttar Proppé og Kristján Þór Júlíusson.

Það er jafnframt skylda þess ráðherra sem núna situr að fara yfir stjórnsýslu í þessum málum og kanna það hvernig við lærum af því.“

Helgi nefndi að allir ráðherrarnir hafi gert athugasemdir við þá níu milljarðar sem fara í utanspítalaþjónustu á hverju ári. „Það liggur í orðum ásökun um að þarna sé verið að fara illa með fé og misnota,“ sagði Helgi. Að læknar séu að taka til sín meira en þeir þurfi.

„Það hafa margir gagnrýnt núverandi fyrirkomulag,“ sagði Svandís og nefndi sem dæmi skýrslu McKinsey og skýrslu ríkisendurskoðunar. Ekki hafi verið nægilega skýrt hingað til hvaða þjónustu og í hvaða magni ríkið sé að kaupa af læknum. „Það er eðlilegt að kaupandi þjónustunnar ákveði hvaða þjónusta er keypt, frekar en seljandinn hafi um það sjálfdæmi.“

Spurð hvort merki séu um að læknar séu að hagnast óeðlilega á núverandi kerfi sagði Svandís vera skort samfellu. „Á aðra höndina þá sitjum við uppi með biðlista og vísbendingar um oflækningar á hina.“ Heilbrigðskerfi sem taki töluvert fjármagn úr ríkissjóði verði að veita heildstæð þjónustu og fjármagn almennings megi ekki fara í oflækningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert