Trúir því að bíó geti breytt heiminum

Hrönn Marínósdóttir, stofnandi og stjórnandi RIFF, finnst hún vera lukkunnar …
Hrönn Marínósdóttir, stofnandi og stjórnandi RIFF, finnst hún vera lukkunnar pamfíll að starf við sitt mesta áhugamál. mbl.is/Eggert

Í veglegum kynningarbæklingi, sem hefur að geyma upplýsingar, viðtöl, fróðleik og dagskrá RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík 2018, segir á einum stað: „Við hjá RIFF trúum því að bíó geti breytt heiminum“. Ekki þarf lengi að ganga að því gruflandi að klásúlan eru runnin undan rifjum Hrannar Marinósdóttur, stofnanda og stjórnanda hátíðarinnar. Enda er hún sanntrúuð.

„Kvikmyndin er gríðarlega sterkur miðill og getur haft heilmikil áhrif á fólk, oft einnig forvarnargildi eins og mynd Baldvins Z, Lof mér að falla, er gott dæmi um. Mér finnst mjög mikilvægt að fá tækifæri til að setjast inn í bíósal í 90 mínútur og kynna mér umfjöllunarefnið frá ýmsum hliðum,“ segir Hrönn og er frekar að vísa í heimildarmyndir en leiknar myndir hvað þetta varðar.

„Margar leiknar bíómyndir taka einnig á alls konar samfélagsmálum og þær fá ríkulegt pláss á hátíðinni. Allar hafa þó skemmtanagildi, enda eftir marga af fremstu leikstjórum heims, sem vita hvernig á að búa til gott bíó. Mér finnst skipta miklu máli að velja myndir sem fjalla um okkar daglega líf eða veita innsýn í líf ýmissa þjóðfélagshópa þannig að við náum að skilja hvert annað og að þær hjálpi okkur að þróa og gera samfélagið betra,“ segir Hrönn. „Kannski svolítið væmið hjá mér, en ég get ekki orðað þetta öðruvísi,“ bætir hún svo við og brosir.

Búin að slíta barnsskónum

Úr nógu er að velja af hvoru tveggja leiknum myndum og heimildarmyndum sem og stuttmyndum. Um 70 myndir frá meira en 30 löndum verða sýndar á hátíðinni, sem fagnar 15 ára afmælinu í ár og laðar að um 20 þúsund innlenda og erlenda gesti ef að líkum lætur. „Unglingurinn er búinn að slíta barnsskónum og er alveg að verða fullorðinn,“ segir móðirin með stolti. Veislan stendur yfir í ellefu daga og hefst fimmtudaginn 27. september með ádeilu- og ævintýramyndinni Donbass, þeirri nýjustu úr smiðju Sergei Loznitsa. „Hann fékk leikstjóraverðlaun fyrir myndina í Cannes og Úkraína valdi hana sem framlag sitt til Óskarsverðlaunanna. Loznitsa er rísandi stórstjarna, sem hefur gert flottar myndir. Að mínu mati ættu allir að sjá þessa mynd,“ segir Hrönn og tekur fram að þrátt fyrir nöturlega lýsinguna sé myndin bráðskemmtileg.

Loznitsa verður meðal fimm heiðursgesta RIFF í ár, hinir eru Jonas Mekas frá Litháen, Laila Pakalnina frá Lettlandi, Shailene Woodley frá Bandaríkjunum og síðast en ekki síst danski leikarinn Mads Mikkelsen. Þau munu sitja fyrir svörum, kynna verk sín og taka þátt í íslenskum Bransadögum og Talent Lab-kvikmyndasmiðjunni, sem haldin eru samhliða.

Mads Mikkelsen spurður spjörunum úr?

„Ég hef fengið símtöl og fyrirspurnir um Mikkelsen frá konum sem ég vissi ekki að hefðu nokkurn áhuga á kvikmyndum, en vilja nú endilega tryggja sér miða á myndirnar með honum og taka þátt í spurt og svarað eftir sýningar.“

Hrönn horfir oft á margar myndir á dag og er búin að sjá flestar myndirnar á hátíðinni. Henni finnst hún lukkunnar pamfíll að starfa við sitt mesta áhugamál. „Við auglýsum eftir myndum og byrjum að safna um leið og RIFF lýkur á haustin og skipuleggjum þá hver horfir á hvað af þeim um eitt þúsund myndum sem yfirleitt berast,“ segir Hrönn.

Greinin í heild birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert