Verð aldrei Superman

Mads Mikkelsen ber Íslandi vel söguna.
Mads Mikkelsen ber Íslandi vel söguna. Kenneth Willard

Markmiðið var að taka þátt í því aðkallandi verkefni að breyta danskri kvikmyndagerð til frambúðar. Það tókst en allt sem á eftir kom hefur farið langt fram úr hans villtustu draumum. Í dag er Mads Mikkelsen með annan fótinn heima í Kaupmannahöfn en hinn í henni Hollywood, þar sem hann dregur að milljónir. „Ég geri bara það sem mér þykir mest spennandi hverju sinni, sem eru mikil forréttindi fyrir leikara,“ segir hann í samtali við Sunnudagsblaðið Morgunblaðsins. 

Slá á stundvíslega á þráðinn til Danmerkur klukkan 9 að íslenskum tíma. Ég geng út frá því að einhver blaðafulltrúi eða almannatengill svari, þannig að ég hleypi brúnum þegar hann kemur sjálfur í símann. „Já, þetta er Mads,“ segir hann glaðlega. Létt er yfir Mads Mikkelsen á þessum morgni enda hefur haustið ekki ennþá skollið af fullum þunga á Dönum, eins og okkur hérna á hjara veraldar. „Já, ég er bara hress. Ert þú ekki þokkalegur?“

Ekki svo að skilja að veðrið dragi kjarkinn úr Mads. „Ég hlakka óvenju mikið til að koma til Íslands að þessu sinni. Sjálfur hef ég komið mörgum sinnum, fyrst 1996 eða 1997, og á orðið nokkra kunningja þarna upp frá en konan mín er á hinn bóginn að koma í fyrsta skipti.Gaman verður að sýna henni landið,“ segir Mads en eiginkona hans er danski danshöfundurinn Hanne Jacobsen. Þau byrjuðu að rugla saman reytum árið 1987 og gengu í heilagt hjónaband árið 2000.

Þess utan á að heiðra leikarann fyrir framúrskarandi listrænan leik á RIFF-kvikmyndahátíðinni sem hefst á fimmtudaginn kemur og er hann jafnframt heiðursgestur.
Þar sem hann er margverðlaunuð heimsstjarna á sviði kvikmyndaleiks er ekki úr vegi að spyrja Mads hvort viðurkenningar af þessu tagi hafi einhverja þýðingu fyrir hann lengur.
„Gríðarlega þýðingu,“ svarar hann ákveðið. „Ísland er partur af norrænu fjölskyldunni og fyrir vikið gleður það mig sérstaklega að fá viðurkenningu frá Íslendingum. Ég er mjög stoltur. Mér hefur alltaf liðið eins og heima hjá mér á Íslandi.“

Mads Mikkelsen, María Thelma Smáradóttir og Joe Penna á frumsýningu ...
Mads Mikkelsen, María Thelma Smáradóttir og Joe Penna á frumsýningu Arctic í Cannes sl. vor.

Spurning hvort kynningarstjóri RIFF ræsir ekki Tólfuna til að taka á móti kappanum í Leifsstöð í vikunni með hópsönginn ómþýða, „Ég er kominn heim!“, á vörum og víkingaklapp í lófum. Bara hugmynd.

Þið veitið því annars athygli að ég kalla viðmælanda minn Mads en ekki Mikkelsen, eins og siður er meðal útlendinga og manni var kennt hér á blaðinu í gamla daga. En maðurinn er eitthvað svo kammó, af þessum fyrstu kynnum að dæma, að mér finnst eftirnafnið hreinlega ekki passa. Þess utan er varla hægt að segja að Danir séu útlendingar á Íslandi, alltént ekki á aldarafmæli fullveldisins.

Hátíð fyrir listina

Langt er síðan RIFF festi sig í sessi og sjálfur þekkir Mads ágætlega til hátíðarinnar. Spurður hvort hann heyri rætt um hana í bransanum ytra svarar hann: „Nei, ekki þannig lagað. Fólk talar bara um hátíðir þegar því er boðið á þær. Meira er rætt um stóru hátíðirnar, eins og Cannes, Feneyjar og Toronto, enda senda kvikmyndagerðarmenn sínar myndir þangað. Slíkar hátíðir snúast hins vegar meira um viðskipti en kvikmyndagerð og einmitt þess vegna eru hátíðir eins og RIFF svo mikilvægar; þær hverfast um listina sjálfa en ekki markaðinn. Það kann ég að meta.“

Íslandstengingarnar eru víðar. Þannig leikur Mads á móti íslenskri leikkonu, Maríu Thelmu Smáradóttur, í einni af sínum nýjustu myndum, Arctic, sem einmitt er tekin upp á Íslandi. Fleiri leikarar koma ekki við sögu í myndinni.

„Þú hefur væntanlega ekki séð myndina ennþá, þar sem hún er ekki komin í almennar sýningar,“ segir Mads en Arctic var frumsýnd á Cannes-hátíðinni síðasta vor. „Hlutverk Maríu er mjög krefjandi. Persóna hennar er varla með lífsmarki, þannig að hún þurfti að dansa á línunni; milli þess að vera meðvitundarlaus og vakandi. Hlutverkið hefur mikla þýðingu fyrir framvinduna, þannig að verulega reyndi á Maríu sem stóð sig frábærlega. Hún fann þetta viðkvæma en flókna jafnvægi og neglir þetta.“

Mads var glaður að sjá Maríu þegar hún mætti á settið. „Ég var einn að leika í myndinni í þrjár vikur, þannig að mér létti verulega þegar annar leikari bættist í hópinn og hjálpaði mér að keyra myndina áfram.“

Hann spáir hinni ungu leikkonu bjartri framtíð á hvíta tjaldinu. „Hún er frábær leikkona og falleg stelpa, þannig að henni eru allir vegir færir. Ég mælist alltaf til þess að fólk leiki í heimalandi sínu, sérstaklega þegar það er að hefja ferilinn, þannig að María ætti að leika eins mikið og hún getur heima á Íslandi. Þegar hún hefur haslað sér völl þar getur hún farið að horfa til annarra landa.“

Mads Mikkelsen með eiginkonu sinni, Hanne Jakobsen.
Mads Mikkelsen með eiginkonu sinni, Hanne Jakobsen.

Mads hefur sagt í viðtölum að hann hafi ekki í annan tíma tekið upp kvikmynd við erfiðari aðstæður og áréttar það hér. „Bæði það að vera svona lengi einn að leika, eins og ég gat um, auk þess sem samskipti okkar Maríu eru í raun takmörkuð í myndinni, og svo hitt að náttúran fór ekki mjúkum höndum um okkur. Íslenska veðrið skiptir stöðugt um ham, eins og þú þekkir, og fyrir vikið er afar erfitt að skipuleggja hvern dag fyrir sig. Kuldinn var svakalegur og vindurinn hreinlega sturlaður á köflum; við lentum til dæmis í því að bílhurð flaug af. Ekki var meira tekið upp þann daginn. Hver áskorunin rak sumsé aðra. Eftir þrjár vikur gáfumst við hreinlega upp á því að skipuleggja dagana fram í tímann; tókum bara því sem að höndum bar á hverjum morgni. Maður deilir ekki við íslenska veðrið.“

Spurður hvort hann hafi fylgst með íslenskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum, sem hafa verið í mikilli sókn úti í hinum stóra heimi undanfarin misseri, andvarpar Mads. „Nei, því miður. Ætli ég sé ekki sá leikari í heiminum sem fylgist minnst með; ég sé aldrei neitt. Hvorki bíómyndir né sjónvarpsþætti.“

Hann hlær.

„Ég veit þó að Íslendingar hafa verið að gera góða hluti og kannast við nokkra Íslendinga í bransanum. En ég verð að sjá myndirnar og sjónvarpsþættina síðar.“

Mads er þekktur fyrir fjölhæfni sína en bregður sér í gervi stjórnmálamanns þegar hann er spurður hvort hann kunni betur við risastórar Hollywood-myndir eða litlar danskar myndir.

„Ég er oft spurður að þessu og svarið er alltaf það sama: Ég er svo gæfusamur að geta gert hvort tveggja og þurfa ekki að velja á milli. Ég geri bara það sem mér þykir mest spennandi hverju sinni, sem eru mikil forréttindi fyrir leikara. Ræturnar eru í Danmörku og hér líður mér alltaf vel en eftir að ég færði út kvíarnar hef ég fengið ómetanleg tækifæri frammi fyrir fleiri áhorfendum sem ég er óendanlega þakklátur fyrir.“

Svo skarast þessir heimar stundum. Hann bendir til dæmis á að Arctic sé engin stórmynd, í fjárhagslegum skilningi, enda þótt hún sé gerð af manni sem býr í Los Angeles, Joe Penna. „Hann er raunar frá Brasilíu og þetta er fyrsta myndin hans í fullri lengd. Svo er myndin tekin upp á Íslandi, eins og við höfum talað um, vegna þess að enginn annar staður kom til greina. Svona margslungin og fjölþjóðleg verkefni gefa mér mikið.“

Kann ágætlega við skúrkana

Á umliðnum árum hefur Mads ósjaldan verið í hlutverki skúrksins, sérstaklega í Hollywood-myndunum, og fengið mikið lof fyrir. Þykir gjarnan gæða þá óræðni og mennsku sem er alls ekki sjálfgefið þegar heimurinn hefur tilhneigingu til að vera svart-hvítur. Spurður hver lykillinn að eftirminnilegum skúrki sé svarar hann: „Þeir þurfa að vera margslungnir og hafa eitthvað til málanna að leggja. Sama má raunar segja um góðu gæjana, þannig að ég nálgast skúrkinn og góða gæjann í raun og veru alls ekki á ólíkan hátt. Lykillinn er að grafa djúpt í handritið og finna kjarnann. Gæða persónuna lífi, hvort sem hún vill vel eða illa.“

– En þú ert oftar „góði gæinn“ heima í Danmörku.

„Já, það er rétt. Ég er sjaldnar skúrkurinn hér heima, þó það komi auðvitað fyrir. Það er tíska að norrænir leikarar fari með hlutverk vondu karlanna í Hollywood, hvort sem það er út af hreimnum eða hvort við lítum bara svona grimmilega út.“

Hann hlær.

„Persónulega kann ég ágætlega við skúrkana; maður vill auðvitað ekki festast í sama hluverkinu. Eins og ég segi þá er ég afar þakklátur fyrir tækifærið í Hollywood og ef það þýðir að ég þarf að vera vondi karlinn þá er það ekkert vandamál af minni hálfu.“

Ætli Ólafur okkar Darri sé ekki á sama máli?

Mads hefur líka brugðið sér í gervi sögulegra persóna, eins og tónskáldsins Igors Stavinskíjs í Coco Chanel & Igor Stravinsky frá 2009 og Struensee greifa í A Royal Affair frá 2012. Spurður hvort hann nálgist slík hlutverk á einhvern hátt öðruvísi en skálduðu persónurnar svarar hann: „Í raun ekki. Auðvitað er maður meðvitaður um að persónan hafi í eina tíð verið af holdi og blóði og gott getur verið að lesa sér til um þær. En þegar tökur hefjast er það bara eins og hvert annað verkefni; þá veltur allt á handritinu, leikstjórninni og túlkun leikarans. Hafandi sagt það þá er ég mikill áhugamaður um sagnfræði og gæti vel hugsað mér að leika fleiri sögulegar persónur. Það er svo forvitnilegt að vita hver við vorum og hvaðan við komum.“

Engin leið er að fá Mads til að gera upp á milli hlutverka sem hann hefur leikið gegnum tíðina; hann er greinilega gott efni í diplómat. „Hlutverkin eru orðin svo mörg og ekki sanngjarnt að draga eitt sérstaklega út. Ég hef leikið svo mörg hlutverk sem standa hjarta mínu nærri. Hlutverk geta í eðli sínu verið æðisleg og maður rennur hreinlega inn í þau; þau geta líka verið geggjuð vegna þess að þau beina manni á nýja braut og þau geta verið eftirminnileg vegna þess að þau komu manni á óvart. Það er leiðinlegt að svara spurningunni ekki beint en því miður get ég ekki tilgreint eitt ákveðið hlutverk.“

Flestir, alltént utan Norðurlandanna, þekkja Mads líklega sem illmennið Le Chiffre í Bond-myndinni Casino Royale frá 2006. Það var sannarlega vendipunktur á ferlinum.
„Ég segi ekki að það hlutverk hafi breytt lífi mínu, sem betur fer, en það breytti ferli mínum sem leikara. Á því er ekki nokkur vafi. Í stað þess að hafa bara eitt eða tvö handrit á borðinu fyrir framan mig var ég skyndilega kominn með heilan bunka. Það er auðvitað risastór sýningargluggi fyrir leikara að komast að í kvikmyndaseríu eins og James Bond og þetta var mikil upplifun fyrir mig. Tilboðum fjölgaði svo sannarlega í framhaldinu en höfum hugfast að magn er ekki endilega sama og gæði. Það á við um kvikmyndahandrit eins og annað í þessu lífi. En það er alltaf jákvætt fyrir leikara að hafa úr hlutverkum að velja.“

– En hvort er það kostur eða galli að vera danskur/norrænn leikari í hinu alþjóðlega umhverfi?

„Það fer eftir því hvernig á það er litið. Segja má að „dogmað“ hafi komið okkur Dönum á kortið fyrir um tuttugu árum og allar götur síðan hefur gefist vel að vera danskur leikari á alþjóðavettvangi. Danir eru í tísku. Alltént er það mín upplifun. Bandarískir leikstjórar – og raunar evrópskir líka – eru stöðugt að leita að nýjum andlitum og ekki spillir fyrir að menn kunni eitthvað til verka. Þess vegna hafa þeir sótt töluvert í danska leikara sem hafa fyrst slegið í gegn heima fyrir. Það getur verið minni áhætta en að taka sénsinn á einhverjum sem er ennþá blautur bak við eyrun. Í þeim skilningi vinnur þjóðernið með mér. Hin hliðin á peningnum er sú að ég er ekki bandarískur sem þýðir að ég verð aldrei Superman eða Batman. Til þess að fá slík hlutverk þurfa menn að vera amerískir út í gegn.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Innlent »

Búið að loka upp í turninn

20:17 Næsta mánuðinn verður ekki hægt að komast upp í Hallgrímskirkjuturn þar sem verið er að skipta um lyftu í turninum. Allt að þúsund manns fara upp í turninn á degi hverjum á þessum árstíma og þeir sem ætluðu upp í dag þurftu því frá að hverfa. Meira »

Fjárhagsleg áhrif úrskurðarins „óveruleg“

20:16 Orkuveita Reykjavíkur hefur ítrekað óskað eftir leiðbeiningum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá ráðuneytinu um hvað leggja skuli til grundvallar við álagningu vatnsgjalds frá því að úrskurður féll í síðasta mánuði þar sem álagning OR á vatnsgjaldi ársins 2016 var úrskurðuð ólögmæt. Meira »

Aðhafast ekki frekar á þessu stigi

19:18 Landsliðsnefnd LH hefur rætt mál knapans Guðmundar Björgvinssonar og harmar að mál sem þessi komi upp, en telur ekki tilefni til þess að aðhafast frekar á þessu stigi, þar sem málið hefur ekki verið endanlega til lykta leitt. Ekki er einsdæmi að eigendur hesta telji sig hlunnfarna í viðskiptum. Meira »

Leiðaráætlun nýs flugfélags tilbúin

17:51 Búið er að útbúa leiðaráætlun fyrir nýtt flugfélag sem Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotels, er í forsvari fyrir. Hann segir vinnu í fullum gangi en ekki sé hægt að gefa upp tímasetningu á því hvenær rekstur geti hafist. Meira »

Álagning OR á vatnsgjaldi ólögmæt

17:41 Álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016 var ólögmæt. Þetta kemur fram í nýlegum úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru vegna álagningar OR á vatnsgjaldi ársins 2016. Í kjölfar úrskurðarins hefur ráðuneytið ákveðið að taka til skoðunar gjaldskrár allra sveitarfélaga, sem settar hafa verið á grundvelli laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004. Meira »

Embætti landlæknis flýr mygluna

17:14 Embætti landlæknis flytur starfsemi sína frá Heilsuverndarstöðinni á Barónsstíg á Rauðarárstíg 10. Um er að ræða tímabundið húsnæði fyrir starfsemina en mygla í húsnæði embættisins á Barónsstíg er ástæða flutninganna. Meira »

Fylgjast náið með veikindum hrossa

17:03 Matvælastofnun fylgist náið með veikindum hrossa þessa dagana en nokkuð er um veikindi í hrossum um þessar mundir, einkum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni. Meira »

Tólf þúsund tonn á land og meira á leiðinni

16:50 Komin eru á land um tólf þúsund tonn af kolmunna í verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Veiðin hefur verið þokkaleg að undanförnu og vinnsla gengið mjög vel. Meira »

Eldur í lyftu í fjölbýlishúsi í Árbæ

16:27 Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út rétt fyrir klukkan fjögur vegna elds í fjölbýlishúsi í Vallarási í Árbæ. Eldurinn kom upp í lyftu í húsinu. Meira »

Engin þingveisla þetta vorið

15:54 Engin hefðbundin þingveisla verður haldin í vor hjá alþingismönnum eins og hefð hefur verið fyrir. Steingrímur J. Sigfússon þingforseti segir að ekki hafi tekist að finna dagsetningu sem hentaði. Meira »

Formaður hefði viljað betri þátttöku

15:17 14,9% félagsmanna í Verkalýðsfélagi Grindavíkur höfðu greitt atkvæði um nýjan kjarasamning kl. 11.30 í dag. Alls greiða um 800 atkvæði um samninginn og um helmingur þeirra er af erlendum uppruna. Meira »

Grunuð um sölu og dreifingu fíkniefna

15:11 Lögreglan á Suðurnesjum lagði hald á umtalsvert magn kannabisefnis og amfetamíns í húsleit sem gerð var í íbúðarhúsnæði að fenginni heimild síðastliðinn föstudag. Fíkniefnin fundust í neyslupakkningum víðsvegar um íbúðina. Meira »

Hálendisvegum lokað fyrir umferð

15:10 Ekki er útlit fyrir að hægt verði að opna fyrir umferð um Fjaðrárgljúfur og Skógaheiði fyrr en 1. júní. Þá hefur Vegagerðin lokað flestum hálendisvegum vegna aurbleytu. Þetta staðfestir Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is. Meira »

Telur Isavia ekki vinna í góðri trú

14:30 „Viðbrögð og viðmót Isavia og fulltrúa þess finnst okkur ekki bera vott um að þeir séu að vinna í góðri trú,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC, við mbl.is eftir að fyrirtaka í máli félagsins gegn Isavia fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Meira »

Lýst eftir manni sem sá líklega árekstur

13:59 Lögreglan á Norðurlandi eystra lýsir eftir manni, sem sá líklega minni háttar árekstur á bílaplaninu við Glerártorg á Akureyri 15. apríl síðastliðinn kl. 16:20. Áreksturinn átti sér stað við innganginn að Rúmfatalagernum. Meira »

Of snemmt að ræða breytingar á Isavia

13:56 Of snemmt er að tala um hvaða nýju áherslubreytingar stjórn Isavia muni boða á rekstri félagsins eftir brotthvarf Björns Óla Haukssonar úr starfi forstjóra í síðustu viku. Þá er augljóst að hin stóra þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar muni taka mið af breytingum á rekstrarumhverfi Isavia. Meira »

David Attenborough á Íslandi

13:13 Sir David Attenborough, náttúrulífssjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, er staddur á Íslandi og vinnur að verkefni fyrir breska ríkisútvarpið BBC, með einhverri aðkomu íslenska framleiðslufyrirtækisins True North. Meira »

„Þátttakan er allt of léleg“

12:27 Innan við 10% félagsmanna í stéttarfélaginu Eflingu hafa kosið um nýjan kjarasamning. Hægt er að kjósa til kl. 16 í dag.   Meira »

Eldurinn við Sléttuveg líklega íkveikja

11:35 Talið er að eldurinn sem upp kom í dekkjum og rusli í bílakjallara við Sléttuveg 7 í Reykjavík á sunnudag hafi verið af mannavöldum. Þetta staðfestir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Meira »
LAND ROVER DISCOVERY 3 S, sjálfsk., disel, 7 manna
Til sölu LAND ROVER DISCOVERY 3 S, sjálfskiptur, dísel, 7 manna ekinn 204.000 km...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
110 fm sumarhús á Suðurlandi..
Sumarhús í Biskupstungum til sölu. Eru 2 hús, annað fullbúið og hitt með þrjú sé...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...