Fannst meðvitundarlaus á götu í miðborginni

Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Þannig var m.a. tilkynnt um tvær líkamsárásir í miðborginni og bíl sem valt í austurhluta borgarinnar.

Það var um tvöleytið í nótt sem lögreglu barst fyrri tilkynningin um líkamsárás og hafði hún átt sér stað við veitingahús í miðborginni. Ölvaður maður  var í kjölfarið handtekinn vegna málsins og vistaður í fangageymslu lögreglu. Ekki kemur hins vegar fram í dagbók lögreglu hversu alvarleg meiðsl þess sem fyrir árásinni voru. 

Seinni tilkynningin um líkamsárás barst svo rétt fyrir fimm í nótt. Maður hafði verið sleginn í höfuðið og lá meðvitundarlaus í götu í miðborginni.  Árásarmaðurinn var hins vegar farinn af vettvangi er lögregla kom að. Vitað var hver hann var og var hann handtekinn skömmu síðar. Er sá raunar grunaður um að hafa í millitíðinni slegið annan mann í andlitið og jafnvel nefbrotið. Var árásarmaðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins, en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um meiðsl þeirra sem fyrir árásunum urðu.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp undir miðnætti í gærkvöldi, en bíll hafði þá oltið í austurhluta borgarinnar. Hafði bílstjórinn óvart stigið á bensíngjöf í stað bremsu og við það valt bíllinn á hliðina. Ekki er talið að þeim sem í bílnum voru hafi orðið meint af, en starfsmaður Króks og slökkvilið aðstoðuðu við að koma bílnum aftur á dekkinn.

Loks hafði lögregla afskipti af manni í mjög annarlegu ástandi í strætóskýli í austurhluta borgarinnar um sexleytið í gærkvöldi. Fékk sá að sofa úr sér í fangaklefa, en við leit á honum fundust efni sem talin eru vera fíkniefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert