Fór hringinn um Ísland á rafhjóli

Sushil fannst landslagið á Öxi tilkomumikið.
Sushil fannst landslagið á Öxi tilkomumikið. Ljósmynd/Luis Fourzan

„Ferðin og upplifunin var gríðarlega áhugaverð og einstök fyrir mig enda kem ég frá Indlandi þar sem aðstæður og veðrið er gjörólíkt. Veðrið á Íslandi er óútreiknanlegt og olli mér áhyggjum, sérstaklega vindurinn,“ segir Sushil Reddy, stofnandi Sun Pedal Ride, í samtali við mbl.is.

Sushil lauk í dag 11 daga hringferð sinni um Ísland á rafhjóli og var á leiðinni upp á hótelherbergi til að hvíla sig þegar mbl.is náði tali af honum. Hann var því skiljanlega þreyttur en engu að síður léttur í lund eftir frábæra ferð. 

Hringinn hjólaði hann á rafhjóli frá IKEA með sólarsellu á tengivagni sem var notuð til að knýja hjólið. Félagi hans, Luis Fourzan, fylgdi honum eftir á Volkswagen Golf-rafbíl. Í mesta vindinum þurftu þeir að skorða tengivagninn á þaki bílsins.

Bílinn þurfti að hlaða reglulega.
Bílinn þurfti að hlaða reglulega. Ljósmynd/Luis Fourzan

„Ég kem frá Mumbai í Indlandi þar sem hitinn er núna 25 gráður og að koma hingað var sérstakt. Veðrið var slæmt, það var mjög kalt og gríðarlega vindasamt, en eftir að ég náði að venjast því varð þetta allt auðveldara. Ferðin heilt yfir var frábær og mögnuð reynsla,“ segir um ævintýrið.

Regnbogi við Skógafoss.
Regnbogi við Skógafoss. Ljósmynd/Luis Fourzan

Vekur athygli á endurnýjanlegri orku

Tilgangur ferðarinnar var að vekja athygli á vistvænum samgöngum og endurnýjanlegri orku en Sushil, sem er með verkfræðigráðu með áherslu á orkumál, hefur brennandi ástríðu fyrir hjólreiðum og vistvænum orkugjöfum. 

„Ég er mjög áhugasamur um að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um mikilvægi hreinnar orku og vistvænna samgangna. Sjálfbærni er eitthvað sem skiptir mig gríðarlega miklu máli og í raun allt sem tengist verndun plánetunnar,“ útskýrir Sashil.

Sushil er einn fyrirlesara á CHARGE-ráðstefnunni sem haldin verður í Hörpu á morgun og á þriðjudag þar sem fjallað verður um framtíð orkumála. Þar mun hann meðal annars tala um verkefni sitt, Sun Pedal Ride, sem snýst um að vekja athygli á betri nýtingu á sólarorku.

Veðrið sett strik í reikninginn á köflum en var gott …
Veðrið sett strik í reikninginn á köflum en var gott þess á milli. Ljósmynd/Luis Fourzan

Hringferðin um Ísland var hluti af Sun Pedal Ride-verkefninu og liður í því að vekja athygli á málaflokknum. Sashil hefur þrisvar áður farið í langferð á rafhjóli og var fyrsta ferðin hans um Indland skráð í Heimsmetabók Guinness sem lengsta ferð á rafhjóli. Síðan þá hefur hann hjólað um Frakkland og Bandaríkin.

„Mig langaði að læra um Ísland. Þetta var ný áskorun og ég kann vel við nýjar áskoranir,“ segir Sashil að lokum áður en hann fer upp á hótelherbergi til að hvíla sig fyrir átök morgundagsins.

Sushil Reddy fyrir utan Hörpu.
Sushil Reddy fyrir utan Hörpu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina