Handtekinn eftir harðan árekstur

Ökumaður jeppans var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis …
Ökumaður jeppans var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Einn var handtekinn um kl. 14 í gær í Borgarnesi í kjölfar harðs árekstrar. Er hinn handtekni grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Honum var sleppt að lokinni blóðsýnatöku en rannsókn málsins er enn í fullum gangi að sögn Jónasar Hallgríms Ottóssonar, varðstjóra hjá lögreglunni í Borgarnesi. Niðurstöðu úr blóðsýnatökunni er að vænta eftir 1-2 vikur að sögn Jónasar Hallgríms. Myndband af árekstrinum birtist á Vísi.is fyrr í dag.

Áreksturinn varð þegar Land Cruiser-jeppa, sem hinn handtekni ók, var sveigt inn á öfugan vegarhelming og hafnaði þar framan á lítilli fólksbifreið, eftir að hafa keyrt fyrst utan í aðra bifreið. Ökumaðurinn var einn í jeppanum en þrír erlendir ferðamenn voru í fólksbifreiðinni. Farþegarnir voru fluttir á slysadeild í kjölfar árekstrarins en engan sakaði alvarlega. 

„Þetta virðist hafa sloppið nokkuð vel, svona miðað við allt og allt,“ segir Jónas Hallgrímur. „Mildin er í raun og veru sú að þetta gerist innanbæjar þar sem hraðinn er minni.“

Líkt og áður sagði er ökumaðurinn grunaður um ölvunar- og vímuefnaakstur en Jónas segir að slík háttsemi sé ekki bundin við nætur. „Það er allur sólarhringurinn undir í því. Vímaðir eru ekki endilega bara á ferðinni á næturnar,“ segir Jónas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert