Ásetningur ekki sannaður

Valur Lýðsson ásamt Ólafi Björnssyni verjanda sínum við upphaf aðalmeðferðar.
Valur Lýðsson ásamt Ólafi Björnssyni verjanda sínum við upphaf aðalmeðferðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómari telur yfir skynsamlegan vafa hafið að Valur Lýðsson hafi veitt Ragnari bróður sínum þá áverka sem leiddu hann til dauða, en ákæruvaldinu tókst að mati dómarans ekki að sanna að „fyrir ákærða hafi vakað að ráða bróður sínum bana“ og því verður 211. gr. almennra hegningarlaga, sem fjallar um manndráp af ásetningi „ekki beitt um háttsemi hans“.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Suðurlands, en Valur Lýðsson var í dag dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að verða Ragnari bróður sínum að bana 31. mars síðastliðinn, með stórhættulegri og vísvitandi líkamsárás.

„Þar sem enginn er til frásagnar um þau atvik sem leiddu til átaka milli þeirra bræðra er ekkert hægt að fullyrða um upptökin að þeim,“ segir í dóminum og því bætt við að fyrir liggi að Valur hafi átt það til að beita ofbeldi undir áhrifum áfengis og sögu um óminni eftir neyslu áfengis.

Valur hefur borið við minnisleysi um atburðina sem áttu sér stað þetta afdrifaríka kvöld í lok marsmánaðar.

„Sú háttsemi ákærða að slá eða sparka í höfuð bróður síns var að sönnu hættuleg en ekki verður talið að honum hafi verið ljóst að langlíklegast væri að afleiðingarnar yrðu þær að hann myndi lenda í bráðri andnauð vegna banvænnar innöndunar magainnihalds og láta lífið af þeim sökum. Þá verður heldur ekki talið að ákærða hafi mátt vera ljóst að langlíklegast væri að högg hans eða spörk í síðu hins látna myndu leiða til þess að rifbein styngjust í lifur hans með lífshættulegum afleiðingum,“ segir í dómi Héraðsdóms Suðurlands, sem kveðinn var upp af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra.

Dómarinn segir að einnig verði ekki litið fram hjá því að ölvunarástand hins látna hafi, að mati réttarmeinafræðings, átt þátt í dauða hans. Auk þess nefnir dómarinn að ekkert hafi komið fram í málinu sem bent gæti til þess að Valur hafi notað einhvers konar vopn eða áhald er hann veittist að bróður sínum, en þær röksemdir notaði verjandi Vals fyrir dómi til þess að benda á að ásetningur skjólstæðings síns hefði ekki verið að bana bróður sínum.

Valur var dæmdur til sjö ára fangelsisivistar í Héraðsdómi Suðurlands …
Valur var dæmdur til sjö ára fangelsisivistar í Héraðsdómi Suðurlands í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Með hliðsjón af hinni hrottalegu atlögu ákærða gagnvart bróður sínum þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár,“ segir í dóminum, en frá refsivist Vals skal draga óslitið gæsluvarðhald hans frá 31. mars 2018.

Þessi niðurstaða er allt önnur en sú niðurstaða sem Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari í málinu fór fram á er hún flutti mál sitt fyrr í þessum mánuði, en ákæruvaldið fór fram á að Valur myndi sæta 16 ára fangelsi fyrir að hafa banað bróður sínum með hrottafenginni árás.

Þá sagði saksóknari að Val hefði mátt vera það fullljóst að árás hans á Ragnar gæti endað með andláti hins síðarnefnda og að um hefði verið að ræða langvarandi árás á mann sem gat sér ekki björg veitt.

Eftir að dómur var kveðinn upp á Selfossi í dag hófst nýtt dómþing um leið og þar var ákveðið að Valur skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi núna eftir að dómur hefur verið kveðinn upp, en honum var sömuleiðis gert að greiða fjórum börnum Ragnars þrjár milljónir hverju fyrir að hafa banað föður þeirra.

Þá greiðir Valur allan sakarkostnað í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert