Gagnrýndi fjársvelti SÁÁ

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað er virkilega að gerast í þessum málum þegar við vitum að hver einasti fíkniefnasjúklingur þarf að nýta sér aðstöðu hjá SÁÁ?“ spurði Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, og beindi orðum sínum að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Alþingi.

Að meðaltali deyja tveir Íslendingar á viku vegna fíknivanda. Þetta eru rúmlega 100 einstaklingar á ári,“ sagði Inga. Hún sagði að SÁÁ hefði ekki fengið neina leiðréttingu eftir hrun og að nú hefðu biðlistar aldrei verið lengri.

Hvað er heilbrigðisráðherra að gera á meðan fólkið okkar deyr hér allt í kring?“

Svandís sagði að það þurfi að efla forvarnir og stuðning við börn og ungmenni þegar komi að því að skilja hvaða hættur eru á ferðinni, sérstaklega hvað varðar notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum.

Ráðherra sagðist einnig hafa sérstakar áhyggjur af fólki yngra en 18 ára; þeim hópi sem SÁÁ hefur sagt að þau vilji ekki lengur taka á móti. „Þess vegna höfum við sett það mál í algeran forgang en með það að leiðarljósi að hjá SÁÁ er gríðarlega mikil sérfræðiþekking í þeim efnum,“ sagði Svandís.

Ekkert svar ráðherra

Ég þakka ráðherra fyrir svarið sem í rauninni enn og aftur var faktískt ekkert svar,“ sagði Inga. Hún sagðist sérstaklega hafa verið að vísa til 278 milljóna sem hafa ekki skilað sér inn í sjúkratryggingar í formi þess þjónustusamnings sem þó er gerður við SÁÁ.

Inga sagði ástæðu þess að SÁÁ talaði um að samtökin geti ekki tekið við einstaklingum undir lögræðisaldri hafi komið í kjölfarið á því að ráðherra hafi sjálfur sagt að það ætti kannski ekki við að einstaklingar undir lögræðisaldri væru í meðferð á slíkri stofnun.

Svandís sagðist hafa verið í góðum samskiptum við SÁÁ og svo muni vera áfram. Hún sagði að ekkert hefði komið fram í tilkynningu frá SÁÁ þegar það sagði sig frá verkefnum að sinna einstaklingum undir 18 ára aldri að það væri byggt á orðum hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert