Hætta á hvössum vindstrengjum við fjöll

Veðurútlit á hádegi í dag, mánudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, mánudag.

Sunnan- og síðar suðvestanátt, 10-18 m/s, og rigning verður á landinu fyrri hluta dags í dag. Hvassast verður við ströndina, en lengst af hægari vindur og þurrt norðaustan til. Búast má við skúrum síðdegis, en svo lægir suðvestan til í kvöld. Búast má við hvössum vindstrengjum við fjöll, einkum norðvestan til.

Það hvessir svo aftur seint í nótt, suðvestan 13-20 m/s og rigning um landið sunnanvert í fyrramálið, en hægari austlæg átt norðan til og rigning. Lægð morgundagsins kemur upp að Reykjanesinu snemma í fyrramálið með hvassan vind og talsverða rigningu að auki.

„Einna hvassast verður sunnan lægðarmiðjunnar sem og mesta úrkoman. Eins og spáin lítur út núna eru það Suður- og Suðausturland sem fá einna versta veðrið í fyrramálið en ef breytingar verða á hvar landganga lægðarinnar verður breytist spáin líka,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings.

Þá er gert ráð fyrir mikilli rigningu á höfuðborgarsvæðinu um tíma í fyrramálið og er fólki því bent á að hreinsa frá niðurföllum svo vatnið komist betur í holræsakerfin og minnki þar með hættuna á vatnstjóni.

Það dregur síðan úr úrkomu og vindi á morgun, fyrst vestan til. Hiti verður á bilinu 2-9 stig, svalast í innsveitum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert