Manni bjargað úr sjónum

Tilkynning barst lögreglunni á Húsavík rétt fyrir klukkan átta í kvöld um að karlmaður væri í sjónum í Eyvík út af Höfðagerðissandi sem er um fimm kílómetra frá bænum. Ekki var vitað á þeirri stundu hvernig maðurinn lenti í sjónum segir á Facebook-síðu lögreglunnar.

Lögreglumenn fóru á staðinn ásamt sjúkraliði og björgunarsveitarmönnum. Einnig var björgunarbáturinn Jón Kjartansson sendur á staðinn frá Húsavík. Tæpum hálftíma eftir að útkallið barst hafði manninum verið bjargað um borð í bátinn heilum á húfi.

Kom í ljós að maðurinn hafði verið við leik í öldunum utan við Höfðagerðissand á fallhlífarbretti en hafði fallið af brettinu og farið úr axlarlið. Gat hann því ekki bjargað sér til lands og rak frá landi vegna vinds. Allhvöss suðvestanátt var á staðnum og að verða myrkur.

Maðurinn var fluttur með Jóni Kjartanssyni til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Vill lögreglan á Húsavík koma á framfæri kæru þakklæti til viðbragðsaðila fyrir skjót viðbrögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert