Suðurnesjabúar snúi viðskiptum annað

VÍS lokaði útibúi sínu í Grindavík í ár.
VÍS lokaði útibúi sínu í Grindavík í ár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég er búinn að skrifa undir uppsögnina,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur ákveðið að beina tryggingaviðskiptum sínum annað eftir að VÍS hóf að loka útibúum sínum á landsbyggðinni. Vilhjálmur hafði verið í viðskiptum við félagið frá upphafi.

Útibúi Vátryggingafélags Íslands í Grindavík, þar sem Vilhjálmur er búsettur, var lokað fyrir nokkrum mánuðum og nú ætlar félagið að færa starfsemi skrifstofunnar sem eftir var í Keflavík til Reykjavíkur.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Vilhjálmur segir að það hljóti að vera hagur fyrirtækisins að veita viðskiptavinum persónulega þjónustu. Hann segir að það hljóti að vera hægt að færa hluta af öðrum rekstri á starfsstöðvar á landsbyggðinni til að festa þær í sessi. „Þau þurfa ekki að hafa allt dýrasta starfsfólkið og dýrasta húsnæðið í einhverjum höfuðstöðvum í Reykjavík.“

Sjálfur hefur Vilhjálmur beint tryggingaviðskiptum sínum til tryggingafyrirtækis sem hefur starfsstöðvar í Grindavík og segir mjög marga aðra bæjarbúa hafa gert slíkt hið sama. „Mér heyrist að það sé svona á öllum Suðurnesjunum. Það eru fáir staðir á landinu þar sem er jafnmikil fólksfjölgun og uppgangur þessa dagana. Hér er 7 til 8% íbúafjölgun á hverju ári og það er óskiljanlegt að fyrirtæki ætli að draga úr þjónustu við þessa íbúa.“

mbl.is