Snjókomu spáð á Hellisheiði

Spáð er snjókomu á Hellisheiði um tíma í dag.
Spáð er snjókomu á Hellisheiði um tíma í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spáð er slyddu eða snjókomu til fjalla á Norður- og Norðausturlandi með morgninum og versnandi akstursskilyrðum. Einnig má búast við snjókomu um tíma á Hellisheiði. Lögreglan á Akureyri leitaði eftir aðstoð verktaka við að festa þakplötur í nótt eftir að þar hvessti skyndilega eftir miðnætti.

Að sögn lögreglu fóru lausamunir að fjúka í nýbyggingum í Hagahverfi, sem er sunnan Naustahverfis. Um er að ræða hverfi í byggingu. Mjög gott veður er núna á Akureyri og ekki urðu teljandi skemmdir af völdum roksins í bænum í nótt.

Gul viðvörun er í gildi frá klukkan 8 til klukkan 14 á Norðurlandi eystra en þar má búast við talsverðri snjókomu til fjalla með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Slydda eða rigning við sjávarsíðuna. Sama viðvörun er í gildi fyrir Austurland að Glettingi frá klukkan 9 til 16 í dag.

Lægð gengur yfir landið í dag, með rigningu eða skúrum en slyddu eða snjókomu á fjallvegum norðan til á landinu. Lægðinni fylgir einnig allhvöss eða hvöss suðvestanátt sunnanlands og síðar einnig á Austurlandi, en hægari vindur í öðrum landshlutum. Hiti 1 til 10 stig, mildast syðst. Vestan 3-10 á morgun og dálitlar skúrir eða slydduél, en léttskýjað suðaustanlands. Litlar breytingar á veðri á fimmtudag, en á föstudag er spáð suðvestanhvassviðri með talsverðri rigningu sunnan og vestan til á landinu, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin er svohljóðandi:

Sunnan 8-13 og rigning, en slydda eða snjókoma til fjalla norðanlands með morgninum. Suðvestan 10-18 með skúrum  sunnan til undir hádegi, síðar einnig á Austurlandi. Hiti 1 til 10 stig, mildast syðst.

Vestlæg eða breytileg átt 3-10 og dálitlar skúrir eða slydduél á morgun, en léttskýjað suðaustanlands. Hiti 2 til 8 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-10 og dálitlar skúrir eða slydduél, en léttskýjað SA-lands. Hiti 2 til 8 stig að deginum, mildast SA-til. 

Á fimmtudag:
Vestan 5-10 og bjartviðri SA- og A-lands, annars skýjað og dálítil él fyrir norðan. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst. 

Á föstudag:
Hvöss suðvestanátt og rigning, talsverð úrkoma S- og V-lands. Hiti yfirleitt 5 til 10 stig. 

Á laugardag:
Norðvestanátt og él N-til á landinu, en þurrt syðra. Kólnandi veður. 

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt, skýjað og dálítil væta síðdegis. Heldur hlýnandi. 

Á mánudag:
Vestanátt, skýjað með köflum og úrkomulítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert