Þurfum að taka öðruvísi á málunum

Sigríður María Egilsdóttir.
Sigríður María Egilsdóttir. Morgunblaðið/Kristinn

Traust fólks til stjórnmálamanna er í sögulegu lágmarki,“ sagði Sigríður María Egilsdóttir, þingkona Viðreisnar, á Alþingi. Sigríður er varaþingkona Viðreisnar en hún sat sinn fyrsta þingfund í gær.

Hún sagði að í nágrannalöndunum segi ráðherrar af sér þegar þeir fara með ráðherrasíma til útlanda án þess að tilkynna það eða greiða ekki útvarpsgjald.

„Hér á landi virðast hins vegar þjóðkjörnir fulltrúar geta keyrt því sem nemur 36 sinnum hringinn í kringum landið á kostnað skattgreiðenda, haldið þjóðhátíðarfundi sem fara 100% fram úr kostnaðaráætlun, verið uppvísir að því að brjóta lög við skipun dómara án þess að svo mikið sem biðjast afsökunar,“ sagði Sigríður.

Hún bætti því við að hún búist ekki við hópuppsögnum eftir ræðuna og það sé heldur ekki ætlunin. „Það sem ég kalla hins vegar eftir er að við tökum ábyrgð á embættisgjörðum okkar. Sú ábyrgð getur tekið sér mörg form, hvort sem það er með afsögn eða með því að játa mistök og sýna iðrun.

Sigríður sagði að hér á landi virtist ábyrgð felast í því að snúa baki í blásandi vind og bíða eftir því að hann lægi. Almenningur vilji hins vegar sjá kjörna fulltrúa þurfa að sæta sömu ábyrgð og hann sjálfur í störfum. 

Ef við viljum virkilega endurreisa traust fólks á Alþingi og framkvæmdarvaldinu þá þurfum við að taka öðruvísi á málunum. Það er einungis þegar við sjálf förum að sýna starfi okkar og stöðu tilhlýðilega virðingu sem við getum farið að kalla eftir trausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert