Tillaga um rafræna fylgiseðla samþykkt

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að verkefnið geti haft mikla þýðingu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að verkefnið geti haft mikla þýðingu. mbl.is/Eggert

Tilraunaverkefni um innleiðingu rafrænna fylgiseðla með lyfjum hefst hér á landi í byrjun næsta árs.

Verkefninu er ætlað að sýna hvort þessi leið nýtist til að einfalda og bæta hefðbundna upplýsingagjöf um lyf gagnvart notendum. Einnig er horft til þess að með rafrænum fylgiseðlum megi auðvelda fámennum þjóðum að standa sameiginlega að útboðum og innkaupum lyfja, að því er segir í tilkynningu.

Fulltrúi Íslands í stýrinefnd Evrópuráðsins um lyf og lyfjafræðilega þjónustu, bar tillögu um tilraunaverkefni þessa efnis fram fyrir hönd heilbrigðisráðherra á fundi nefndarinnar í Strasbourg fyrr í þessum mánuði.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og vísað til sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um gæða- og öryggisstaðla lyfja og lyfjafræðilega umsjá til nánari umfjöllunar og afgreiðslu.

Verkefnið sem tillagan snýst um er mótað á grundvelli þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2020 þar sem segir að stefna beri að því að fylgiseðlar með lyfjum verði rafrænir.

„Mikið ánægjuefni“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikið ánægjuefni að tillaga Íslands um málið hafi hlotið brautargengi. Ef tilraunaverkefnið gefur góða raun þannig að umræddri tilskipun Evrópusambandsins verði breytt geti það haft mikla þýðingu: „Þetta mun auðvelda til muna sameiginleg lyfjainnkaup með öðrum þjóðum. Fyrir fámenna þjóð eins og okkur er það mjög mikilvægt, bæði til að tryggja betur nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja og til að ná hagstæðari innkaupum,“ segir Svandís í tilkynningunni

„Eins er þetta mikilvægt í fjölmenningarsamfélögum nútímans, þar býr fólk af mörgum þjóðernum sem talar og skilur ólík tungumál. Það er mikilvægt grundvallaratriði fyrir örugga notkun lyfja að fólk geti lesið sér til um rétta notkun, um aukaverkanir og annað sem mikilvægt er að fólk hafi vitneskju um.“

Stýrinefnd Evrópuráðsins um lyf og lyfjafræðilega þjónustu (CD-P-PH) er skipuð af og heyrir undir ráðherraráð Evrópuráðsins. Einar Magnússon, lyfjamálastjóri í velferðarráðuneytinu, er fulltrúi Íslands í nefndinni og hefur undanfarin tvö ár verið formaður hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert