VÍS horfi á landið sem eina heild

Höfuðstöðvar VÍS í Ármúla í Reykjavík.
Höfuðstöðvar VÍS í Ármúla í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir að VÍS sé að sameina skrifstofur í 6 öflugar skrifstofur víðs vegar um landið. VÍS horfi á landið sem eina heild og skipuleggi þjónustuna út frá því þannig að hún sé samræmd og óháð búsetu. „Þetta er stórt skref en við erum að vinna út frá þessari ákvörðun,“ sagði Helgi.

Hörð viðbrögð hafa verið við þessari ákvörðun. Landssamband íslenskra verzlunarmanna krafðist þess í gær að hún yrði endurskoðuð. Þá samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar í gær bókun, þar sem kemur fram að samningar sveitarfélagsins við VÍS, sem renna út um áramótin, verði ekki framlengdir í ljósi skerðingar á þjónustu VÍS.

„Öll svæði eru okkur mikilvæg en við ákvörðun um staðsetningu skrifstofa horfðum við til margra þátta, við erum t.a.m. að sameina skrifstofur sem heyra undir sama atvinnusvæði. Viðskiptavinir okkar munu áfram geta, í flestum tilfellum, leitað til þeirra starfsmanna sem þeir hafa verið í samskiptum við þar sem starfsmönnum okkar, þar sem það er landfræðilega mögulegt, hefur boðist áframhaldandi starf hjá félaginu,“ sagði Helgi. 

Eftirspurn fari vaxandi

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS. Ljósmynd/Aðsend

Helgi segir að starfsmenn VÍS sjái skýr merki um að viðskiptavinir félagsins vilji í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga samskipti við félagið, t.a.m. í gegnum vefinn, mitt vís, tölvupóst, netspjall og síma. „Okkar trú er að sú eftirspurn fari vaxandi. Við erum því að einbeita okkur enn frekar að því að þróa og setja í loftið stafrænar lausnir sem einfalda þjónustuna og gera hana aðgengilegri fyrir viðskiptavini okkar, hvar á landinu sem þeir búa. Síðustu ár hefur orðið gríðarleg aukning í t.a.m. innsendum tölvupósti og símtölum til okkar. Við erum að leggja megináherslu á að bæta þá þjónustu og gera hana samræmda yfir landið í heild,“ sagði Helgi.

Spurður um það hvort margir hefðu hætt viðskiptum sínum við VÍS vegna sameiningaráformanna, sem eiga að taka gildi um næstu mánaðamót, sagði Helgi of snemmt að segja til um það. „En við höfum auðvitað orðið vör við þá umræðu. Við vonum og trúum að þeir viðskiptavinir sem hafa verið hjá okkur til margra ára og verið í samskiptum við starfsmenn okkar muni áfram sjá hag sinn í því að halda því áfram. Við trúum því líka að viðskiptavinir okkar muni í síauknum mæli sækja í stafræna þjónustu og þar ætlum við að vera í fararbroddi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert