Varasamt að kaupa lyf svart

„Við höfum ekki verið að sjá almenn lyf í þessum farvegi, það er þá bara eitthvað alveg nýtt,“ sagði Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld vegna frétta af því að fólki hafi boðist slík lyf á almennum markaði. Þekkt sé hins vegar að ávana- og fíknilyf hafi verið seld með þeim hætti.

Rúna varaði við því að kaupa lyf á svörtum markaði. Þau gætu til dæmis verið fölsuð. Hún sagði að Lyfjastofnun hefði ekki fengið upplýsingar um að skortur væri á krabbameinslyfi sem Lára Guðrún Jóhönnudóttir greindi frá í fjölmiðlum að sér hafi boðist að kaupa svart, svokölluðu andhormóni. Tvö slík lyf hafi verið á markaði og aðeins annað þeirra, samheitalyf, ekki fengist. Frumlyfið hafi hins vegar verið til að sögn heildsölunnar.

Fram kom að Lyfjastofnun standi nú fyrir fundum um lyfjaskort og hafi rætt í dag um málið við heildsala og framleiðendur. Rúna sagði að hægt væri að bæta tilkynningaskyldu hjá Lyfjastofnun, heildsölunum, markaðsleyfishöfum, Sjúkratryggingum og lyfjagreiðslunefnd. Unnið væri að úrbótum þar. Hægt sé að flytja inn lyf með undanþágu sé skortur á því. Hins vegar hafi sú leið ef til vill ekki verið kynnt nægjanlega vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert