Á flækingi með ömmu um Miðausturlönd

Jóhanna hvílir lúin bein í Íran, þar sem hún var …
Jóhanna hvílir lúin bein í Íran, þar sem hún var á ferð með afkomendum sínum árið 2011. Ljósmynd/Hrafn Jökulsson

„Ég var unglingur á fyrsta ári í menntaskóla þegar ég fór fyrst með ömmu til framandi lands, sem var til Egyptalands,“ segir Vera Illugadóttir, en hún ætlar á morgun, fimmtudag, að spjalla yfir kaffi með gestum borgarbókasafnsins í Kringlunni og segja frá ferðum sínum um Miðausturlönd með ömmu sinni Jóhönnu Kristjónsdóttur.

„Amma bauð mér og mömmu með sér í þessa ferð þó ég hefði ekki lýst neinum sérstökum áhuga á því að fara með henni. En auðvitað þóttu mér allar hennar ferðir mjög forvitnilegar og amma var hafsjór af fróðleik um þessar þjóðir og upplýsti mig unglinginn. Eftir þessa fyrstu ferð með ömmu til Egyptalands varð ekki aftur snúið hjá mér, þetta kveikti sannarlega áhuga minn á þessum heimi og ég fór í fleiri ferðir með henni, til Sýrlands, Jemen, Jórdaníu, Líbíu og Marokkó. Amma á vafalítið stóran þátt í sagnfræðiáhuga mínum, þetta kveikti áhuga hjá mér á veröldinni allri og öllum þeim sögum sem búa að baki.“

Vera ætlar í erindi sínu á morgun m.a. að koma inn á hvernig umhorfs var í Sýrlandi þegar hún var þar með ömmu sinni áður en borgarastyrjöldin skall á með þeim skelfilegu afleiðingum sem ekki sér enn fyrir endann á.

„Ég var með ömmu í Sýrlandi nokkrum árum áður en þetta gerðist, þá var þetta frekar friðsælt land og allt öðruvísi umhorfs þar en núna. Amma bjó þarna um tíma og var öllum hnútum kunnug, svo ég fékk að kynnast landinu vel í gegnum hana. Það kom mér rosalega á óvart þegar þetta fór allt eins og það hefur farið í Sýrlandi, það er skelfilegt þegar friðsælt land breytist í vígvöll,“ segir Vera og bætir við að amma hennar hafi sem leiðsögumaður farið margar ferðir til Sýrlands með Íslendinga og í ótal ferðir til annarra framandi landa.

Sjá viðtal við Veru í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert