Afar dræm kosningaþátttaka 20-24 ára

Aðeins 57% kosningabærra íbúa í Reykjanesbæ tóku þátt í sveitarstjórnarkosningum …
Aðeins 57% kosningabærra íbúa í Reykjanesbæ tóku þátt í sveitarstjórnarkosningum í vor. mbl.is

Kosningaþátttaka var heldur meiri í sveitarstjórnarkosningunum í vor heldur en 2014 en kjörsóknin var mest í Árneshreppi en minnst í Reykjanesbæ. Aðeins 48% fólks á aldrinum 20-24 ára nýtti sér kosningaréttinn. 

Við sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí síðastliðinn voru 247.943 á kjörskrá og greiddu 167.622 kjósendur atkvæði í 71 sveitarfélagi en auk þess var sjálfkjörið í einu sveitarfélagi. Sveitarfélög voru tveimur færri en við kosningarnar 2014 vegna sameiningar sveitarfélaga á tímabilinu. Kosningaþátttakan var 67,6% þar sem kosning fór fram eða heldur hærri en í sveitarstjórnarkosningunum 2014 þegar hún var dræmust, 66,5%. Kosningaþátttaka kvenna var 68,8% og karla 66,5%, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

Mikill munur var á þátttöku eftir sveitarfélögum, kjörsókn var mest í Árneshreppi 93,5% en minnst í Reykjanesbæ 57,0%. Í Reykjavík var kosningaþátttakan 67,1% eða svipuð og á landinu í heild.

Mest kosningaþátttaka hjá 65-74 ára

Kosningaþátttaka var almennt minni í yngri aldurshópum eins og í sveitarstjórnarkosningum 2014, forsetakjöri 2016 og alþingiskosningum 2016 og 2017. Minnst kosningaþátttaka var í aldurshópnum 20–24 ára en tæpur helmingur þeirra greiddi atkvæði í kosningunum (48,1%) og rétt rúmur helmingur þeirra sem voru 25–29 ára (51,2%).

Hinsvegar mætti yngsti aldurshópurinn, 18–19 ára, betur á kjörstað (53,7%). Þátttaka í kosningunum var mest í aldurshópnum 65–74 ára eða um 83% en minnkaði svo með hækkandi aldri. Var þessu svipað farið hjá konum og körlum en þátttaka kvenna eftir aldri var meiri en karla að aldurshópnum 65–69 ára þegar viðsnúningur varð og var kjörsókn eldri karla meiri en kvenna. 

Kjörsókn var lægst í sveitarfélögum með 10.000–99.999 íbúa 60,1% en jókst eftir því sem sveitarfélögin voru fámennari. Kosningaþátttakan hækkaði almennt með hækkandi aldri jafnt í fjölmennum sem fámennari sveitarfélögum. Kjörsókn 18–29 ára var 42,1% í sveitarfélögum með 10.000–99.999 íbúa en 69,9% hjá 40 ára og eldri. Í sveitarfélögum með færri en 5.000 íbúa var kosningaþátttaka 18–29 ára 62–67% en 82–84% hjá 40 ára og eldri.

Kosningaþátttaka norrænna ríkisborgara með kosningarétt var 51,4% og annarra erlendra ríkisborgara 15,3% á sama tíma og kjörsókn var 69,7% hjá þeim sem höfðu íslenskt ríkisfang í þeim 39 sveitarfélögum sem gögn byggja á. Til samanburðar var þátttaka norrænna ríkisborgara 56,7% og annarra erlendra ríkisborgara 17,0% við sveitarstjórnarkosningarnar 2014 og er þátttakan því lægri nú. Um helmingi lægri kjörsókn var hjá aldurshópi 18–29 ára en hjá 40 ára og eldri bæði hjá norrænum og öðrum erlendum kjósendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert