Dæmdur fyrir hótanir gegn dýralæknum

Maðurinn var dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brotin.
Maðurinn var dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brotin. mbl.is

Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir grófar og heiftúðugar hótanir gegn starfsfólki á dýralæknastöð eftir að hann fór með hund í skoðun þar. Þá var hann einnig fundinn sekur um að hafa flutt inn til landsins tvo brúsa af piparúða og stera.

Í ákæru málsins voru listaðar upp sjö færslur mannsins á Facebook sem voru taldar til þess fallnar að vekja hjá starfsmönnum dýralæknamiðstöðvarinnar ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.

Drep þetta helvítis pakk

Segist hann meðal annars að allt bendi til þess að dýralæknarnir hafi sýnt vanrækslu í starfi þegar hundurinn fór í allsherjarskoðun. Eru eftirfarandi ummæli meðal annars höfð eftir honum: „ef svo sem eg mun komast i fyrramálið munuð þið ekki sja mig a faceinu næstu daga,eg ætla að stúta þessum læknabeljum krepptum hnúum og þungum höggum og senda 5 sprautusjuklinga til að kveikja i þessari dýranýðsholu til að bjarga hinum dýrunum,EG ER SVO BRJALAÐUR NÚNA AÐ SÉ JAIL TIME FRAMUNDAN,DREP ÞETTA HELVÍTIS PAKK OG ÞAÐ Í FYRRAMÁLIÐ.“

Þá segist hann vera að skrifa niður nöfnin á öllum dýralæknunum „og er að undirbúa massiver hefndaraðgerðir á morgun,fylgstu með vísir.is og mbl. a morgun vidir minn eg er að fara kýla þessar kellingarherfur og dýranyðinga í klessu og þetta er loford,eg er brjalaður.“

Hótaði að brenna dýraspítalann

Segist maðurinn hafa farið í allsherjarskoðun og sérstaklega óskað eftir að hlustað yrði á hjartað í hundinum. Telur hann hins vegar að það hafi ekki verið gert og hótar hann meðal annars að brenna stofuna. „en þeir fokkuðu þessu upp og i staðinn ætla eg að kýla dýralækningahóruna sem sinnti henni sundur og saman og siðan ætla ef að senda 5 djönkara sem eg þekki til að brenna þetta skítaplace til að bjarga greyið dýrunum sem eru send á þetta fokkings helvítis skítaplace“

Þá vísar maðurinn til þess að hann sé kominn upp á stofuna daginn eftir og að hann sé með boxhanska. Passar það við lýsingu í dóminum, en starfsmenn á stofunni vitnuðu til um að maðurinn hefði komið þar og viljað tala við dýralækninn sem tók hundinn í skoðun. Sá starfsmaður hafi hins vegar ekki verið við þann dag. „A takk fyrir góð ráð en eg er kominn uppi [...] og er með boxhanska þannig að það sest minna á dýraníðingnum,eg er brjálaður ósofinn og útúr kókaður og gjörsamlega geðveikur gloria min er að deyja og það þýðir refsing og grimmileg hefnd það þýðir ekkert að stoppa mig,“ sagði hann í Facebook-færslunni.

Full ástæða til að taka hótununum alvarlega

Maðurinn játaði að hafa skrifað færslurnar, en að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að ummæli hans á Facebook hefðu getað valdið ótta hjá þeim sem þau lásu. Þá kvaðst hann iðrast gjörða sinna. Segir þó í dóminum að hann hafi ekki sýnt iðrun sína í verki.

Í niðurstöðu dómsins segir að ráða megi að maðurinn hafi ekki verið í andlegu jafnvægi þegar hann setti færslurnar inn og jafnvel í annarlegu ástandi eins og hann segir í færslunum. „Höfðu starfsmennirnir fulla ástæðu til að taka hótanirnar alvarlega, eins og raun bar vitni og glögglega kom fram í vitnisburði þeirra fyrir dóminum,“ segir í dóminum.

Auk hótana var maðurinn sem fyrr segir dæmdur fyrir að flytja inn tvo brúsa af piparúða og stera, annars vegar árið 2015 og hins vegar 2017. Hins vegar var vísað frá þeim lið ákærunnar sem vísaði að innflutningi á eftirlíkingu á riffli og magasíni.

Maðurinn hefur áður hlotið þriggja ára dóm fyrir fíkniefnainnflutning og tveggja ára dóm fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu sína auk hótana og fjárkúgunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert