Fái gjafsókn vegna kynferðisbrota og heimilisofbeldis

Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrsti flutningsmaður málsins.
Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrsti flutningsmaður málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lagt hefur verið fram nýtt þingmál sem veitir þolendum í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum rétt til gjafsóknar. Fyrsti flutningsmaður er Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Nái málið fram að ganga munu brotaþolar slíkra brota eiga möguleika á að koma einkaréttarkröfum sínum að, sér að kostnaðarlausu, þegar þær hafa ekki fengið framgang í sakamáli. Slíkt getur gerst þegar sakamál eru felld niður á rannsóknarstigi af ýmsum ástæðum, svo sem vegna mistaka lögreglu, þegar nægar sannanir eru ekki taldar vera til staðar eða þegar sýknað er í sakamálinu. Við þessar aðstæður kann að vera hægt að fara í einkamál til að fá einkaréttarlegum kröfum framgengt enda eru sönnunarkröfur þar minni en í sakamáli og þá kæmi þetta gjafsóknarúrræði til sögunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna þingmálsins.

Reglur um gjafsókn kveða á um í hvaða tilvikum kostnaður við dómsmál einstaklings er greitt úr ríkissjóði. Nú þegar getur fólk fengið gjafsókn, óháð efnahag, í nokkrum tilvikum. Má þar nefna þegar um er að ræða úrskurði óbyggðanefndar um þjóðlendur, vinnudeilur fyrir Félagsdómi og í bótamálum sem varða handtöku og gæsluvarðhald.

Löggjafinn hefur því nú þegar tekið þá ákvörðun að í ákveðnum málum skuli gjafsókn vera heimiluð burtséð frá efnahag umsækjanda. Flutningsmenn telja að heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamál eigi hiklaust heima í þessum flokki mála sem heimila gjafsókn. Bent er á að í Svíþjóð sé gjafsókn veitt vegna kynferðisbrotamála og í Noregi eigi brotaþolar í ofbeldismálum möguleika á að fá gjafsókn.

„Efnahagur fólks eða fjölskyldu á ekki að ráða því hvort hægt sé að sækja sér einkaréttarkröfur í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert