Óánægja með geðþóttaákvarðanir og seinagang

Mikil gagnrýni kemur fram á Samgöngustofu í áfangaskýrslu starfshóps sem …
Mikil gagnrýni kemur fram á Samgöngustofu í áfangaskýrslu starfshóps sem Sigurður Kári Kristjánsson fór fyrir í ráðherratíð Jóns Gunnarssonar. Ljósmynd/Af vef ríkisendurskoðunar

Veru­leg­ar at­huga­semd­ir eru gerðar við starf­semi sigl­inga­hluta Sam­göngu­stofu í áfanga­skýrslun starfs­hóps sveit­ar­stjórn­ar- og sam­gönguráðuneyt­is­ins um störf og starfs­hætti Sam­göngu­stofu. Samkvæmt birtum tölum Stjórnarráðsins hafa tólf ágreiningsmál komið upp vegna ákvarðana siglingahluta Samgöngustofu frá árinu 2013.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður starfshópsins, gagnrýndi í samtali við Morgunblaðið í gær að ekki hafi orðið framhald á störfum starfshópsins. Í samtali við Morgunblaðið í dag furðar Jón Gunnarsson, fyrrverandi sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, sig á afdrifum skýrslunnar og að ekkert hafi verið gert í umræddum athugasemdum á því ári sem liðið er frá því að skýrslunni var skilað.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður starfshópsins, og Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgöngu- …
Sigurður Kári Kristjánsson, formaður starfshópsins, og Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, gagnrýna að svo virðist sem skýrslan um störf og starfshætti Samgöngustofu hafi dagað uppi í ráðuneytinu. mbl.is/Samsett mynd

Meðal þess sem kemur fram um siglingahluta Samgöngustofu í skýrslunni er að ákvarðanir þar séu teknar eftir geðþótta starfsmanna og eftirlitið sé á skjön við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Segir að megn óánægja sé meðal fyrirtækja sem eiga í samskiptum við stofnunina en óánægjuna má meðal annars rekja til geðþóttaákvarðana starfsmanna sviðsins við yfirferð teikninga og annað eftirlit með skipum auk „sér­ís­lensks reglu­verks“ í tengsl­um við sigl­inga­mál hér á landi.

Fyrirtæki sem gera út svokallaða Rib-báta hafa undanfarin ár átt …
Fyrirtæki sem gera út svokallaða Rib-báta hafa undanfarin ár átt í deilum við Siglingastofnun vegna krafna sem stofnunin hefur viljað gera til reksturs bátanna með tilliti til öryggismála. Um er að ræða opna slöngubáta en stofnunin vill ekki að fluttir séu fleiri en tólf farþegar með bátunum þrátt að þeir rúmi fleiri. mbl.is/Sigurður Ægisson

Engar fastar reglur, seinagangur og hik

Segir í skýrslunni að oft sé óljóst á hvaða grunni kröf­ur stofn­un­ar­inn­ar hvíla að sögn viðmæl­enda starfs­hóps­ins sem sögðu starfs­menn sigl­inga­sviðsins reglu­lega setja fram nýj­ar kröf­ur á smíðatíma skipa með til­heyr­andi kostnaði.

Eins og kom fram í samtali við Sigurð Kára í Morgunblaðinu í gær hafði starfshópurinn fengið á sinn fund um það bil 80 gesti. Meðal þeirra var sér­fræðing­ur í skipa­smíðum sem kvaðst hafa unnið við leng­ingu fimm ná­kvæm­lega eins skipa sem smíðuð voru eft­ir flokk­un­ar­regl­um Nor­ske Ver­itas.

Tvö þeirra voru smíðuð í Nor­egi, tvö á Íslandi og eitt í Dan­mörku. Seg­ir í skýrsl­unni að greiðlega hafi gengið að breyta skip­un­um und­ir eft­ir­liti norska flokk­un­ar­fé­lags­ins og dönsku sigl­inga­stofn­un­ar­inn­ar en annað hafi verið uppi á ten­ingn­um með sam­göngu­stofu. „Eng­ar fast­ar regl­ur virt­ust gilda og sam­skipt­in ein­kennd­ust af seina­gangi og hiki stofn­un­ar­inn­ar,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Veit ekki um eitt fyrirtæki sem segir farir sínar sléttar af Samgöngustofu

Stefán Guðmunds­son, for­stjóri hvala­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Gentle Gi­ants á Húsa­vík, ber siglingasviði Samgöngustofu ekki góða söguna.

„Ég veit ekki um eitt ein­asta fyr­ir­tæki sem seg­ir far­ir sín­ar slétt­ar af þess­ari stofn­un, og við erum að tala um ansi mikið af fyr­ir­tækj­um og ein­stak­linga,“ seg­ir Stefán. „Og það er orðin al­gjör klass­ík, og hef­ur haft marg­ar birt­ing­ar­mynd­ir á sigl­inga­sviði, að ef ein­hver set­ur ofan í eða vog­ar sér að kvarta und­an sigl­inga­sviðinu til sam­gönguráðherra eða ráðuneyt­is þá refsa emb­ætt­is­menn­irn­ir mönn­um. Það er ótrú­lega al­gengt inni á þess­ari stofn­un,“ seg­ir Stefán.

Stefán Guðmundsson.
Stefán Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Stef­áns hef­ur ástandið farið versn­andi ár frá ári. „Þetta hef­ur farið hraðversn­andi, og menn tala um að þegar þess­ar stofn­an­ir voru sam­einaðar hafi þetta mögu­lega unnið sér inn titil­inn versta sam­ein­ing stofn­ana í allri Íslands­sög­unni. Sigl­inga­stofn­un fór úr ösk­unni í eld­inn.“

„Þetta bitn­ar þannig á fyr­ir­tækj­um að það eru jafn­vel sett­ar nýj­ar heima­til­bún­ar regl­ur sem stand­ast enga skoðun, og þær eru all­ar meira og minna íþyngj­andi, veru­lega. Það er fullt af fyr­ir­tækjum sem kikna und­an því og hafa ekki bol­magn til að hreyfa við mót­mæl­um eða kær­um.“

Gentle Gi­ants er einn fjöl­menn­asti vinnustaður­inn á Húsa­vík með 50 starfs­menn og níu báta, þar af fimm svo­kallaða Rib-báta sem fyr­ir­tækið not­ar til hvala­skoðunar. „Þetta blessaða sigl­inga­svið skoðar alla farþega á Íslandi með til­liti til úr hverju þeir eru gerðir, hvað þeir eru stór­ir, fjölda sæta, björg­un­ar­búnaðar og hæfni hvers báts til að sinna sínu. En það er bara til einn stimp­ill  á Rib-báta,“ seg­ir Stefán um dæmi þess hvernig hann hafi staðið í deilum við stofn­un­ina.

„Það skipt­ir engu hvernig Rib-bát­ur­inn er gerður, hversu stór hann er, sæta­fjöldi, björg­un­ar­búnaður eða hvernig hann er bú­inn tól­um og tækj­um. Þetta er svipað og að all­ar rút­ur á Íslandi sem heita Scania fái bara leyfi til að flytja tólf manns burt­séð frá öllu öðru. Okk­ar bát­ar hafa all­ir 24 til 26 sæti en við meg­um bara flytja tólf. Ég held að það sé eins­dæmi á heimsvísu að það gildi ein­ar skoðun­ar­regl­ur fyr­ir farþega­skip og svo eng­ar skoðun­ar­regl­ur fyr­ir önn­ur farþega­skip.“

Þá nefn­ir Stefán lög­skrán­ing­ar­kerfið sem er á veg­um Sam­göngu­stofu en ætti að vera hjá Land­helg­is­gæsl­unni. „Land­helg­is­gæsl­an er með vakt all­an sól­ar­hring­inn og það eru fræg dæmi um að lög­skrán­ing­ar­kerfið hafi legið niðri frá föstu­degi til mánu­dags og eng­inn starfsmaður verið á vakt hjá Sam­göngu­stofu til að kippa því í liðinn,“ seg­ir Stefán og bæt­ir við að fyr­ir­tæki sigli þá jafn­vel með þúsund­ir farþega sem alla jafna ættu ekki að kom­ast á sjó því kerfi stofn­un­ar­inn­ar liggi niðri.

Í áfanga­skýrsl­unni kem­ur einnig fram að gera þurfi aðkallandi breyt­ing­ar á lög­skrán­ing­ar­kerf­inu þar sem það hafi verið byggt í kring­um sjó­mennsku og henti því illa ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækj­um þar sem skrá þurfi oft og tíðum sömu áhafnir á ólík skip inn­an sama dags, en kerfið býður ekki upp á slíkt.

Samgöngustofa lítur svo á að verkefninu sem hófst með stofnun starfshópsins sé lokið

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir í skriflegu svari til mbl.is að stofnunin hafi þegar svarað öllum atriðum sem komi fram í áfangaskýrslunni með minnisblaði til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sl. vor og telur stofnunin að verkefninu sem hrundið var af stað í tíð fyrri ráðherra lokið.

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.

Segir hún að í skýrslunni sé vegið að starfsheiðri sérfræðinga Samgöngustofu hvað varðar eftirlit með skipum, og að fullyrðingar um geðþóttaákvarðanir eigi ekki við rök að styðjast.

„Starfsmenn Samgöngustofu sem vinna við eftirlit með skipum eru allt sérfræðingar á sínu sviði og hafa áratuga reynslu og þekkingu á tæknimálum skipa. Þeir starfa eftir þeim reglum sem á Íslandi gilda og byggja flestar á alþjóðlegum kröfum,“ segir hún í svari sínu til mbl.is.

„Niðurstöður stofnunarinnar í einstaka málum eru ekki ávallt í takt við væntingar viðskiptavina en í langflestum tilvikum er sátt um niðurstöður þegar kröfur hafa verið útskýrðar eins og þörf krefur í hverju tilviki,“ segir Þórhildur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert