Herða eftirlit eftir slys

Það þarf að fara varlega þegar losa á um stíflur …
Það þarf að fara varlega þegar losa á um stíflur í niðurföllum. mbl.is/Þorkell

Umhverfisstofnun ætlar í víðtækt eftirlit með stíflueyðum í næsta mánuði. Þá verður skoðað hvort merkingar séu í lagi og tappar með barnalæsingum. Ekki er sérstakt eftirlit með því hver kaupir stíflueyði og ekkert aldurstakmark.

Björgvin Jónsson, íbúi á Sauðárkróki, hlaut stór og alvarleg brunasár þegar stíflueyðir helltist yfir hann í sumar en hann sagði sögu sína á fréttavefnum Feyki.

Björgvin keypti flösku af One Shot-stíflueyði sem er 91% brennisteinssýra um miðjan júlí í byggingavörudeild KS. Hann opnaði brúsann, eins og hann hafði oft gert áður, en í þetta skiptið gaus upp úr flöskunni.

Innihaldið helltist yfir fótlegg, hönd og baðherbergisgólf. Náttbuxur, handklæði og sokkur bráðnuðu og töluverðar skemmdir urðu á baðherberginu. Björgvin þakkar fyrir að hafa ekki fengið efnið í augun og að börn hans hafi ekki verið nálægt þegar slysið átti sér stað.

Auk þess segist hann hafa verið mjög heppinn með snör viðbrögð sjúkraflutningamanna og lögreglumanna en hann var fluttur á heilsugæsluna á Sauðárkróki, þaðan á Sjúkrahúsið á Akureyri og loks í sjúkraflugi á Landspítalann.

Björgvin hvetur fólk til að fara varlega með stíflueyði en hann gekkst undir stóra aðgerð á Landspítalanum, er með stórt ör á fæti eftir atvikið og var frá vinnu í tæpa þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert