Interpol lýsir eftir Íslendingi

Ari Rúnarsson er eftirlýstur af Interpol.
Ari Rúnarsson er eftirlýstur af Interpol. Skjáskot/Interpol

Interpol hefur gefið út handtökuskipan á Ara Rúnarsson, 27 ára íslenskan karlmann, að beiðni íslenskra yfirvalda vegna vopnaðs ráns og líkamsárásar á Akureyri í október í fyrra. Fréttablaðið greinir fyrst frá.

Héraðssaksóknari gaf nýlega út ákæru á hendur Ara fyrir að hafa í félagi við annan karlmann veist að þriðja manninum með ofbeldi og hótunum á bílastæði bak við Nætursöluna við Strandgötu á Akureyri í október í fyrra. Í ákærunni kemur fram að annar þeirra hafi slegið manninn með flösku í höfuðið, slegið ítrekað í andlit og höfuð og sparkað í fætur fórnarlambsins.

Þá hótuðu mennirnir að drepa hann og „grafa í holu úti í sveit“ og þess að „búta niður kærustu hans, skera hann á háls og stinga hníf upp í heila hans,“ eins og það er orðað í ákæru héraðssaksóknara. Mennirnir tóku af fórnarlambinu farsíma, úlpu og fjögur þúsund krónur í reiðufé.

Á vef Interpol kemur fram að Ari sé eftirlýstur fyrir vopnað rán og líkamsárás. Þá segir í frétt Fréttablaðsins að Ari hafi í september 2017 verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot og verið dæmdur fyrir fíkniefnaakstur árin 2017, 2010 og 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert