Lögregla kærð fyrir að rannsaka ekki kynferðisbrot

Héraðssaksóknari er með til meðferðar mál um hvort lögreglumenn hafi …
Héraðssaksóknari er með til meðferðar mál um hvort lögreglumenn hafi gerst sekir um refsivert athæfi við meðferð máls. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lögmaður hefur lagt fram kæru til ríkissaksóknara og héraðssaksóknara vegna málsmeðferðar lögreglu eftir tilkynningar barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar um möguleg kynferðisbrot föður stúlknanna. Fréttablaðið, sem greindi fyrst frá málinu, segir það hafa komist í hámæli í vor vegna afskipta Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu.

Kærurnar eru lagðar fram af Jóhanni Baldurssyni, lögmanni stúlknanna tveggja, og móður þeirra, og beinast gegn ótilgreindum starfsmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna þeirrar málsmeðferðar sem tilkynningar barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar um möguleg kynferðisbrot hafi hlotið í þeirra meðförum.

„Það er mitt mat að þetta hafi verið óeðlilegt,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is.

Um er að ræða tvær kærur sem varða meðferð tveggja mála sem barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar tilkynnti til lögreglu með tæplega tveggja ára millibili. Fyrri kæran var lögð fram í lok árs 2014 og sú síðari í árslok 2016.

Fyrri kæran var send ríkissaksóknara í júlí og varðar tilkynningu barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar til lögreglu í desember 2016. Þá eiga sterkar vísbendingar að hafa komið fram í meðferð og viðtölum hjá barnaverndaryfirvöldum um brot gegn stúlkunum. Engin lögreglurannsókn fór hins vegar fram í kjölfar þeirrar tilkynningar.

Síðari kæran var svo send héraðssaksóknara fyrir hálfum mánuði og snýr að meintri óeðlilegri meðferð rannsóknarlögreglu í tengslum við rannsókn á brotum föðurins gegn stúlkunum í árslok 2014. Við rannsókn þess máls komu fram vísbendingar um eldra brot gegn móðurinni, sem ekki var rannsakað. 

Segir Jóhann að stúlkunum hafi ekki verið skipaður réttargæslumaður vegna síðara málsins, né heldur virðist slíkt hafa verið gert vegna meints brots gegn móðurinni sem átti sér stað er hún var 17 ára.  „Það fyrsta sem á að gera er að útvega réttargæslumann og það er augljóst í nýrra málinu að það var ekki gert,“ segir Jóhann.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að  embætti héraðssaksóknara sé með til meðferðar mál um hvort lögreglumenn hafi gerst sekir um refsivert athæfi við meðferð máls sem var lokið fyrir nokkru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert