Lofar safaríkum sögum frá Íslandi

Flugstjórinn Bruce Dickinson fyrir framan Ed Force One, hirðþotu Iron …
Flugstjórinn Bruce Dickinson fyrir framan Ed Force One, hirðþotu Iron Maiden, sem er í eigu Air Atlanta. Ljósmynd/John McMurtrie

Bruce Dickinson, söngvari hins goðsögulega málmbands Iron Maiden og flugstjóri með meiru, mun troða upp í Hörpu sunnudaginn 16. desember næstkomandi. Ekki er um tónleika að ræða, heldur einskonar eins manns leikhúsgjörning eða spjallsýningu undir yfirskriftinni, Hið talaða orð (Spoken Word).

Sýningin er tvískipt; í fyrri hlutanum fjallar Dickinson í máli og myndum um feril sinn en hann er maður eigi einhamur, eins og þar stendur. Auk þess að hafa verið söngvari Iron Maiden í 37 ár (með stuttu hléi á tíunda áratugnum) er Dickinson atvinnuflugmaður, viðskiptajöfur, bruggari, frumkvöðull, rithöfundur, fyrirlesari, útvarpsmaður og fyrrverandi skylmingakappi á heimsmælikvarða, svo fátt eitt sé nefnt. Frásögnin byggist að mestu á endurminningum hans, What Does This Button Do?, sem Dickinson skrifaði ekki bara sjálfur, heldur handskrifaði og komu út á síðasta ári. „Gestir mega eiga von á óborganlegum sögum og vandræðalegu myndefni,“ segir í kynningu.

Tekur við spurningum úr sal

Er það bara ég, eða minnir þetta á einhvern hátt á spjallsýningar Kaffibrúsakarlanna í gamla daga? Nema hvað þessi er einn á ferð, Kaffi-Bruce-akarlinn.

Seinni hluti sýningarinnar er fyrirspurnatími, þar sem gestum gefst tækifæri til að spyrja Dickinson spjörunum úr. Hverjum miða fylgir áritað eintak af endurminningum hans. Hvor hluti stendur í um 45 til 50 mínútur.

What Does This Button Do? er metsölubók bæði í Bandaríkjunum og heimalandi Dickinsons, Bretlandi. „Dickinson er eins og við var að búast sögumaður fram í fingurgóma ... ótrúlegur maður sem veitir öðrum innblástur,“ skrifaði tímaritið LOUD Magazine.

„Dickinson er ekki bara málmgoðsögn. Hann er Málmgoðsögnin,“ skrifaði tímaritið Noisey.

Dickinson skrifaði einnig tvær satírískar skáldsögur snemma á tíunda áratugnum og handritið að kvikmyndinni Chemical Wedding ásamt leikstjóranum Julian Doyle en hún var frumsýnd árið 2008. Dickinson lék nokkur lítil hlutverk í myndinni.

Gera má ráð fyrir safaríkum sögum frá Íslandi á sýningunni en Dickinson hefur tengst landinu sterkum böndum í hálfan annan áratug, eftir að hann hóf að fljúga fyrir Iceland sáluga Express og eins og margir vita er breiðþotan sem Iron Maiden flýgur á milli tónleika, Ed Force One, í eigu Air Atlanta. Dickinson mun einmitt hafa lokið við endurminningarnar um borð í henni á Book of Souls-heimstúrnum.

Söngvarinn Dickinson á sviði með Iron Maiden. Ef vel er …
Söngvarinn Dickinson á sviði með Iron Maiden. Ef vel er hlustað má heyra hann syngja slagarann The Trooper en eftir honum heitir bjór kappans. Ljósmynd/John McMurtrie

Dickinson var um tíma markaðsstjóri flugfélagsins Astraeus, sem flaug einmitt fyrir Iceland Express, en það lagði síðar upp laupana.

Líf kappans hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hann greindist með krabbamein í tungu, af öllum stöðum, árið 2015. Hann undirgekkst í kjölfarið meðferð, þar sem komist var fyrir meinið. Það var einmitt að meðferð lokinni sem Dickinson lauk þjálfun á Boeing 747-vélar, ásamt fleiri flugmönnum frá Air Atlanta. Eftir það hefur hann flogið Ed Force One til 36 landa, vítt og breitt um heiminn. Þotan er merkt Iron Maiden í bak og fyrir og hirðsveinn bandsins, hinn ógurlegi Eddie the ’Ead, brosir kankvís við loftfarendum. Þá er bjór þeirra Maiden-manna, Trooper, vel kynntur á vélarskrokknum en hann hefur einmitt fengist í Vínbúðinni undanfarin misseri. Ekki þarf að spyrja að því að Dickinson á heiðurinn af uppskriftinni ásamt bruggmeistara Robinsons-brugghússins í Stockport. Trooper kom á markað árið 2013 og varð fljótt vinsælasti bjór framleiðandans. Fleiri tegundir hafa bæst við undir hatti Trooper, meðal annars hinn fágæti 666 en áfengishlutfallið í honum er að sjálfsögðu 6,66%.

Fjárfestir líka í flugi

Dickinson flýgur ekki bara sjálfur, hann hefur einnig komið að fjárfestingum í fluggeiranum. Hann hefur til að mynda tekið þátt í endurreisn afríska flugfélagsins Air Djibouti og á hlut í stærsta loftskipi heims, helíumfylltu loftfari sem flogið getur mannlaust vikum saman. Þá er hann einn af fjárfestunum á bak við svokallaðan „fæðudróna“ sem hefur þann eiginleika að koma fæðu og lyfjum til fólks í neyð. Loks mun Dickinson vera að leggja drög að geimferðaskrifstofu. Dagsatt. Útfærslan liggur ekki fyrir í smáatriðum.

Af Iron Maiden er það að frétta að bandið hefur nýlega lokið við Evróputúr, þar sem Spitfire-flugvél lék stórt hlutverk á sviðinu, en næstu mánuði mun Dickinson einbeita sér að spjallsýningunni, þar sem Norðurlöndin og Ástralía eru undir.

Að sýningunni stendur norskt fyrirtæki, Catwork. Miðasala hefst á föstudaginn kemur á harpa.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert