Misvísandi umfjöllun um spillingu

Innan við 20% starfsfólks hefur persónulega reynslu af mismunun og …
Innan við 20% starfsfólks hefur persónulega reynslu af mismunun og mun færri hafi beina reynslu af því sem kallað er alvarleg spilling. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök atvinnulífsins (SA) telja æskilegt að umfjöllun um spillingu í skýrslu starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu verði endurskoðuð. Samtökin telja umfjöllunina vera misvísandi og einungis byggða á fræðilegri umfjöllun að takmörkuðu leyti. Í ítarlegri umsögn SA eru gerðar athugasemdir við að skortur á trausti sé skýrður með vísan til meintrar spillingar og benda á að í þeim hluta skýrslunnar þar sem fjallað er um spillingu hérlendis er vitnað í umfjöllun fréttamiðla um niðurstöður rannsókna í stað rannsóknanna sjálfra.

„Umfjöllun um spillingu virðist byggja að miklu leyti á frásögnum fjölmiðla (Vísis og Ríksútvarpsins) af erindi Gunnars Helga Kristinssonar á fundi í Háskóla Íslands í janúar 2016 án þess að vitna í erindið sjálft eða leita eftir niðurstöðunum hjá fyrirlesaranum,“ segir í umsögn SA. Í skýrslu starfshópsins er vitnað til nýlegrar könnunar um að yfir 70% þjóðarinnar telji spillingu í stjórnkerfi og atvinnulífi vera mikla eða frekar mikla. SA benda á að í sömu könnun kemur fram að innan við 20% hafi persónulega reynslu af mismunun og mun færri hafi beina reynslu af því sem kallað er alvarleg spilling. En það hafi verið meginniðurstaða rannsókna Gunnars Helga án þess að fjallað sé um það í skýrslunni. Segja SA einnig að einungis traust til lögreglu, forseta Íslands og Landhelgisgæslunnar hafi mælst hærra en til eigin vinnuveitanda meðal Íslendinga í júlí 2017.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið, að það sé hrópandi misræmi milli þess sem skýrslan dregur fram og þess sem erlendir skoðunaraðilar, sem birta lista yfir gagnsæi og spillingu, segja um Ísland. „Þegar Íslendingar líta inn á við draga þeir upp allt aðra mynd en þegar útlendingar sem eru að meta þessa hluti á milli landa sjá, þegar þeir líta inn til landsins. Þetta er staðfest í hverri könnun á eftir annarri þar sem Ísland vermir alltaf efstu sæti, alveg sama þótt það varði litla spillingu, gæði heilbrigðiskerfisins, eða lífskjör þjóðarinnar.“

Alþjóðlegum kvörðum ber ekki saman

Hann segir aðalatriðið í alþjóðlegum mælikvörðum hvað varðar spillingu ekki vera það að lenda í fyrsta, öðru eða fjórða sæti, heldur vera meðal efstu þjóða. Samkvæmt Corruption Perceptions Index sem Transparency International gefur út er Ísland 13. minnst spillta landið af 180 löndum. „En innlend orðræða er oft með þeim hætti að hér sé spilling og það hefur eflaust áhrif á upplifun fólks. Erlendir sérfræðingar sem horfa inn til landsins finna hinsvegar einfaldlega ekki þá spillingu sem margir innlendir aðilar virðast hafa áhyggjur af.“

Staðhæfingar án röksemda

SA segja einnig að sumar staðhæfingar skýrslunnar standi án þess að sett séu fram dæmi eða rök með þeim. Í skýrslunni stendur m.a. að sterkir sérhagsmunaaðilar nái ákveðnu tangarhaldi á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum. „Til þess að svo þungar ávirðingar séu marktækar verður að styðja þær með dæmum og hverjir aðilarnir séu og hvernig þeir hafa fengið ákvörðunum breytt og í hverju tangarhaldið hafi verið falið,“ segir í umsögn SA. „Það er ekki nefnt dæmi eða þá undir hvaða horni menn hafi tangarhald á einstökum aðilum og á meðan það er ekki nefnt þá er ekki hægt að taka mark á þessum kafla skýrslunnar,“ segir Halldór og bætir við að það séu margir umdeilanlegir hlutir í skýrslunni og hluti af henni hljóti að kalla á endurskoðuð vinnubrögð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert